Heimasíða Ásgarðs

02.11.2012 09:46

Kolvitlaust veður og Nótt veðurteppt


Ég fór niður í hesthús áðan í skítakulda og hávaðaroki til að afhenda hana Nótt og knúsa hana og kyssa áður en hún færi af landi brott en hún er að fara til Þýskalands í næstu viku.

Fluginu var frestað vegna veðurs og einnig er ekki hægt að hreyfa hestatrailera í svona kolvitlausu veðri.Það er mjög óvenjulegt að íslenskir flugmenn fari ekki í loftið sem að segir manni hve vont veðrið er núna:(
En ég fékk nóg af súrefni í lungun fy
rir næstu dagana ef ekki vikurnar og Nótt fékk líka fullt af knúsi :)!

 Flight cancelled because of the very bad weather we are having her.To much risk to take a trailer full loaded of horses while cars are flying off the roads now because of heavy wind.So Nótt will be picked up next Monday morning:)
And I got allot of oxygen in my lungs for many days ore weeks and Nótt got allot of kisses and knús:)

Veðrið er að verða laglega klikkað og svona er það við Garðskagann núna og eflaust ennþá klikkaðra uppá Flugvelli!

30.10.2012 21:30

Framkvæmdir í Ásgarðinum og Nótt að fara í flug

Hér eru framkvæmdir komnar á fullt við gamla húsið okkar eða aðra íbúðina en húsinu er skipt í tvær íbúðir.

Byggjarnir mínir að setja nýju fínu gluggana í:)

Boggi Byggir og Hebbi Byggir eru að skipta um alla gluggana í minni íbúðinni og bara í dag settu þeir 3 glugga á suðurhliðinni.

Veðrið var aðeins að stríða þeim en þarsem þetta eru þvílíkir Bubba byggjar þá blesu þeir bara tilbaka á kuldabola.

Nótt frá Ásgarði (er stundum kölluð Svarta Perlan:) er tilbúin fyrir sitt ferðalag en hún er að fara til Þýskalands í næstu viku en þar bíður spenntur eigandi hennar eftir henni.

Nótt er staðfest með fyli við Borgfjörð frá Höfnum sem er ansi flottur Aðalssonur (frá Nýja Bæ).

Núna er skítkalt og rok úti og langar manni ekkert út.

Ætla bara að vera inní hlýjunni þartil þessu veðri slotar:)

28.10.2012 23:53

Tókum kindarúnt í dag

Við fórum kindarúnt uppí hólf í dag til að kíkja eftir þessum 9 kindum sem við eigum þar og höfðum brauðmola með okkur í körfu.
Hólfið lítur vel út og næg beit ennþá og engin ástæða til að fara að smala alveg strax fyrren veður fer að bíta í rollurassa.

Við ákváðum að fara rúnt um hólfið og skoða betur uppgræðslusvæðin sem líta feiknavel út og verður gaman að sjá sprettuna í vor þarsem borið var á síðastliðið vor og sumar.

Þetta grey tapaði í viðureigninni við rebba.

Við keyrðum fljótlega frammá vígvöll eftir rebba en það er svolítið síðan hann hefur náð lambi og drepið þar.

Bara hauskúpan og eitt rif eftir ásamt ullartætlum um allt.

Enn héldum við áfram og eftir smá stund þá sá ég eitthvað sem líktist ull á stað þarsem engin kind var og eitthvað var þetta skrítið.
Ég bað kallinn um að stoppa og tók upp kíkir og í framhaldi af því ákváðum við að labba og athuga þetta nánar.

Þegar að var komið þá sáum við að þarna lá afvelta kind og enn var hún lifandi greyið og reyndi allt hvað hún gat að rétta sig af og komast í burtu en gat lítið hreyft sig.
Hún var orðin horuð en mesta furða samt hvað hún gat sveiflað til hausnum og fótunum sínum.

Við hringdum í eigandann sem kom að vörmu spori og fór með gripinn heim í fjárhús þarsem er verið að reyna að hjúkra henni á fætur enda er þetta ung kind og ætti að takast að koma henni á réttan kjöl aftur.

Hvítur rebbi sást þarna skammt frá og er mesta furða að hann skildi ekki vera búinn að fara í kindina!

Við snerum svo við og keyrðum í átt að stórum kindahóp og fórum út og kölluðum gibbagibb og það var ekki að því að spyrja:)

Koma þessar elskur á harðaspani:)!

Hópurinn klofnaði strax í tvennt og til okkar komu hlaupandi fagnandi 9 brauðkindur en hinar streymdu bara sem lengst í burtu enda þekktu þær ekki þessi köll og hróp.


Frá vinstri:Gullhyrna og Gráhyrna systurnar frá Hrauni og hún Heba veturgömul Karenar/Toppsdóttir.

Það var gaman að sjá gibburnar og þær litu vel út og þáðu brauðið með þökkum.


Fleiri kindamyndir í albúmi:
Kindarúntur 28 Október.

25.10.2012 22:26

Veturinn undirbúinn hjá dýrunum á bænum


Þessar eru Ásgarðsræktaðar:)

Drulluþreytt eftir síðustu tvo daga en ánægð.

Byrjaði daginn á því að fara í Grænmetisbílinn hjá henni Jóhönnu og verslaði mér dýrindis grænmeti beint af bónda.

Tók smá snúning á húsinu mínu og þreif útúr dyrum.Setti kallinn á ryksuguna en hún er eitthvað stirð í skapinu við mig og ég ekki að ráða við nýja hausinn á henni og situr hún sem fastast á teppinu í frástrokunni en er þæg við mig í aðstrokunni.

Nennti ekki að slást við hana í dag þannig að kallinn göslaðist um á henni og hafði hún ekki roð í hann:)

Skellti í brauðvélina áður en ég fór að vinna og þvottavélina.

Við erum að undirbúa veturinn hjá fuglunum útí húsi og gera allt ferlið þægilegra bæði fyrir menn og skepnur.

Stefnan er að allir fuglarnir verði komnir í plastbúr sem fyrst og erum við búin að vera að moka út kanínuskít og moka inn skeljasandi í flórana (þetta er einsog dauðaganga með börurnar!)og slétta og setja bretti til að lyfta búrunum upp í þægilega vinnuhæð.

Það fer mjög vel um fuglana í þessum búrum,gott skjól og þeir geta hoppað og skoppað um allt og fá sandbað og spænir á gólfið.

Það þarf ekkert að troða brauðinu ofaní Hermínu,bara passa puttana!:)

Næst var að gefa á garðann enda Hermína  farin að banka og banka með framfæti í hurðina án afláts.

Ekki að spyrja að því þegar að hún heyrir þrusk fyrir innan og ilminn af nýopnðari rúllu streyma um.

Það er eins gott að vera ekki fyrir þegar að hersingin ryðst inn!


Toppur kallinn var tekinn úr 20 Október og fer svo lítið fyrir honum núna í augnablikinu að það lá við að við gleymdum að gefa honum og vatna í stóðhestastíunni.


Ég færði hann til þarsem auðveldara er að kjassa hann og hann sér út og getur fylgst með umganginum í húsunum.

Ég þarf að versla mér hrút handa honum sem félagskap því hann er einn inni á daginn grey kallinn á meðan að kindurnar eru útí að virða sig.

Við fengum góða gesti í kvöld en það kom fólk að versla sér hænur.

Lítill Silkiungi og Amerísk unghæna.

Örfáar hænur eru óseldar og orðið voðalega lítið eftir af kanínum og þá sérstaklega læðum.


Eftir allar gegningar fór ég í labbitúr með tíkurnar niður í hesthús að gefa í stallana en stóðhestarnir eru við opið og fá hey með beitinni.

Von nýja hryssan mín:)

Stóðið er í góðum málum enda spratt hér aftur upp gras í fyrst almennilegu rigningu í Ágúst LOKSINS!Við erum að láta bera heilmikið af búfjáráburði á túnin og beitarstykkin og er enn að spretta upp af honum en síðustu ferðirnar voru farnar núna fyrir tæpri viku.

Líklega fer það að vera búið enda ekki margir blettir til óábornir eftir sumarið:)
Nú hlakkar manni bara til að vita hvernig sprettan verður næsta vor af þessu gúmmilaði sem hænsnaskíturinn er:)!

Eftir hesthúsferðina þá nennti ég ekki að standa í eldamennsku á haus enda þegar að ég kom inn þá var Melissa búin að baka og húsið ilmaði af brauðlykt.

Ég bjó til fátækrarsúpu sem samanstendur af grænmeti (sem til er) og bakaði ég upp súpuna og skellti einum tening af krafti útí og vola!

Á morgun verður eitthvað meira spennandi að ske en hér er verið að byrja á lagfæringum á litlu íbúðinni okkar.
Við erum búin að kaupa gluggana og glerið kom í gær og svo bara ræðst framhaldið af smiðnum og veðrinu:)

21.10.2012 20:18

Fálki í heimsókn


Hingað kom um daginn þessi líka stóri og flotti Fálki og smellti sér niður beint fyrir framan okkur í hænsnahópinn sem rak upp skerandi öskur og þusti inní hænsnakofa á harðahlaupum!


Þvílíka skelfingu hef ég ekki séð hjá hænunum áður og þorðu þær ekki meira út þann daginn.

Við fréttum svo af Fálka (kannski sá sami) aðeins sunnar þarsem hann var búinn að afgreiða eina gæs takk fyrir og sat að snæðingi þegar að var komið.

Í dag sá ég Fálka niður í haga og var hann að gæða sér á einhverju og stökk ég út með cameruna til að reyna að ná mynd honum og athuga hvort allt þetta hvíta fiður í haganum kæmi af einni af hænunum okkar.

Sem betur fer þá var það ekki en Fálkinn hafði náð sér í Máv og var búinn með bringuna að mestu og ríflega það.

Mér datt í hug að athuga hvort að Mávurinn væri merktur og svo var.

Á merkinu stendur:

MUS.RER.NAT.
Box.5320REYKJAVÍK
341994. Iceland

 og ef að 1994 ártal þá hefur þessi Mávur verið orðinn 18 ára gamall.


Nú þarf ég að senda merkið inná Náttúrufræðistofnun á morgun með þeim upplýsingum sem þeir þurfa:)

Og hvaða tegund af Máv er þetta gott fólk???

20.10.2012 23:21

Rjúpa og Pascale heimsóttar austur fyrir fjall

Það var gaman að koma austur að Völlum til hennar Pascale en Rjúpa er búin að vera í þjálfun hjá henni og gengur bara vel með hryssuna.Hún er líka búin að fá mikla hreyfingu en á milli þess sem hún er sjálf í þjálfun þá hefur hún verið dugleg við að teyma tamningartrippi utaná sér og sagði Pascale mér að Rjúpa fengi þau allra hörðustu og erfiðust og færi létt með að draga þau áfram og tæki ekki í taum.

Rjúpa er komin á þann stað í ferlinu að ég held að það verði ekki hægt að gera mikið meira fyrir hana en Pascale er búin að kreista útúr henni alveg helling en það sem tefur fyrir að hún tölti almennilega og á einhverri ferð (brokkið er sko ekki ferðlaust á Rjúpunni!) er hve roslega stór og mikil sleggja í vexti hún er blessunin.Vinkonurnar á Hringvellinum


Pascale að vanda sig:)

Jafnvægið er að trufla hana en takturinn orðinn mjög góður og hreinn en skeiðið sem er auðvelt að sækja hefur ekki verið hreyft.
Fet,brokk og stökk er mjög gott og hryssan er svo þæg að hver sem er getur riðið henni.


19.10.2012 20:59

Kjötdúfur til sölu


Er með til sölu nokkur pör af dúfum (kjötdúfum:).

Fyrstur kemur fyrstur fær,þær eru búnar að vera ansi duglegar að unga út í sumar og er ég að stoppa þær af núna.Öll pör merkt og seljast saman.
Flestar eru hvítar að lit.
Netfang
ransy66@gmail.com
Sími 869-8192

09.09.2012 23:14

Réttað í Kirkjubólstaðahverfisrétt og Bæjarskersrétt.


Kráka með tvær gríðarlega vænar Toppsdætur

Fórum í blíðskaparveðri klukkan 10:00 Sunnudaginn 9 September og smöluðum hólfið.

Við erum bara 4 bæir með fé þarna og var beitin til fyrirmyndar í ár þrátt fyrir þurrkana í sumar.
Hver bær leggur fram vissa upphæð fyrir áburði og einnig leggur landgræðslan okkur lið með áburð og fræ.

Gullhyrna að fá sér sopa í góða veðrinu.

Vatni er keyrt uppeftir megnið af sumrinu og hafa kindurnar aðgang að saltseinum.


Við fengum góða smala með okkur og hólfið smalaðist mjög vel og enginn eltingarleikur einsog stundum hefur orðið.

Allir voru fótgangandi og enginn hestur í þessu smali.

Hebbi og Gísli gengu frammá afvelta gemsa sem var í bráðri hættu þegar að var komið en rebbi var á vappi þarna í kringum hann.

2 lömb fundust dauð og var rebbi nánast búinn með annað þeirra.

Við kollheimtum og var féð í fínu standi og núna skildum við eftir nokkrar af yngri kindunum því beitin er næg og flott.

Við tókum heim öll lömbin og fullorðnu hrútana 3 þá Topp, Forna Grábotnason og Losta Toppson.

Við tókum  einnig heim Hermínu sem unir sér ekki lengi uppfrá og vill alltaf snemma heim en hún er uppalin heimavið fyrstu 3 árin sín eða svo og vill helst vera heima.

Ég læt það eftir henni næsta sumar  að vera heima í nýja fjárhólfinu sem við girtum í vor fyrir þrílemburnar og annað sem við vildum dekstra við.

Hermína hornalausa með Mínu litlu sem verður sett á:)

Hún verður orðin 8 vetra næsta vor þannig að hún er að verða komin eða komin á ellilífeyrir blessuð kellingin mín.


Kráka fékk einnig að koma heim en hún er að mjólka af sér öll hold  og er einsog mamma sín með það.
Engin smá dugnaður í þessari ættlínu.

Vinkona mín á Hrauni (ekki lýgur hún:) vill meina að hún sé komin útfrá henni Herdísarvíkur Surtlu sem var drepin í heilmikilli aðgerð fyrir fjölda mörgum árum en sú kind lítur nánast alveg út einsog mamma hennar Kráku sem hét svarthyrna.
Eða við viljum meina það:)

Svarthyrna heitin mamma Kráku.

Hausinn af herdísa Surtlu hangir á vegg á Tilraunastöðinni á Keldum en hún tapaði loks viðureigninni við manninn.


Hér er önnur frásögn af Herdísar Surtlu

Eftir að við vorum búin að keyra heim fénu okkar þá var klukkan ekki nema 13:00 og þarsem veðrið var enn gott þá datt okkur í hug að kíkja í Bæjarskersréttina en þangað höfum við aldrei komið.

Það var gaman að sjá ný og gömul andlit og spjalla við menn.

Fullt af ungu fólki að aðstoða eldri fjáreigendur og alveg niður í smá skott sem hlupu heim á eftir fénu:)

Fleiri myndir með því að klikka hér.

22.07.2012 22:58

Rignir og grænkar og seinna vorið mætt:)


Elding Hróksdóttir og Von Ögradóttir rennblautar.

Hér fór loksins að rigna fyrir alvöru með stóru lægðinni spáð var en hún klikkaði á vindinum en það rigndi alveg heilann helling.

Hér voru pollar útí móum og gult grasið lifnar við og grænkar með látum.

Okkur líður núna einsog vorið sé að koma í annað sinn og erum spennt að sjá hvernig allt grænkar og lagast eftir skelfilega þurrka í sumar.


Röskva og Sjöfn Astródætur.

Girðingarvinna hefur verið erfið því að sandurinn rennur viðstöðulaust ofaní holur sem búið er að gera fyrir þá.

En núna eftir að blotnaði aftur í jörðinni þá ætti að vera hægt að halda áfram að pota niður staurum en við erum að yfirfara allar girðingar hér.Við seldum "óvart" hana Sjöfn Astródóttur en hún var nú ekki á söluskrá blessunin.

Hún átti nú að vera hér um ókomin ár en þegar að svona gott boð býðst í grip þá getur maður ekki hafnað því.

En hún fer nú ekki langt og er seld innanland sem er nú frekar sjaldgæft hjá okkur.

Hún er gríðarlega stór einsog svo mörg Astróbörn eru og liturinn er ekki til að skemma fyrir:)


Busla fór líka í gönguferð útí heiði:)

Við fórum í dag í rigningargöngu útí heiði að athuga með gróður bæði í kindahólfinu sem lítur vel út en þar var borið vel á í vor bæði tilbúinn áburður og húsdýraáburður í miklu magni.

Ég var alveg hissa hvað það er krökkt af bláberja grænjöxlum!

Þetta verður gott berjaár!

Ég gat mig ekki stillt og borðaði nokkra grænjaxla:)

Ég er alltaf að reyna að færast nær upprunanum í mat og reyni að rækta sem flest af því sem fer ofaní okkur hér á bæ.

Stytta ferlið einsog hægt er frá haga og ofaní maga með engum milliðum og læra að bera ábyrgð á eigin hollustu.

Nú hljóma ég frekar leiðinleg myndi ég ætla en ég fæ svona hollustu köst og eru þau að verða fleiri en óhollustu köstin þannig að þetta er allt í rétta átt.

Sko ég er ekkert heilög og "dett"stundum í það líka en finn þá hve gigtarskömmin hlær og hlakkar í öllum útlimum þegar að það skeður!

Ágætt að hafa hana til að minna mann á að það er ekki hollt að borða bara unnar matvörur sem keyptar eru útí búð og maður veit illa um upprunann eða meðferðina á.

Heimaræktað Oregano

En að nýjasta æðinu hjá konunni:)

Ég er farin að rækta krydd af miklum móð og er búin að þurrka fyrstu uppskeruna af Oregano og Marjoram!

Ekkert smá gaman að klippa niður og setja í hreint koddaver og á heitann blástur inní ofn.

Svo rúllaði ég bara kökukeflinu varlega yfir koddaverið og svo var það svolítil vinna en skemmtileg þó að hreinsa frá stilkana.

Þetta krydd er mun bragðsterkra en það sem maður kaupir útí búð og það er algerlega ómögulegt að ætla að nota það hrátt finnst mér.

Kannski á ég bara eftir að læra að meta það þannig:)


Oregano og Marjoram komið í krukkuna hægra megin,frábært Pizza krydd.


Mímir Astró/Skjónusonur

Það gengur mjög vel með eftirþjálfunina á honum Mímir en hann er svo hress eftir geldinguna að það er einsog enginn hafi komið nærri honum með geldingatöngina.

Ég tók þá inn fyrir veðrið og hafði þá inni á meðan að versta rigningin reið yfir en setti þá svo aftur út undir kvöld í dag.

Máni Hróks/Skjónusonur

Máni litli bróðir Mímis stækkar og stækkar og ætlar að verða sami risinn og öll afkvæmin hennar Skjónu minnar.

Hálfbræðurinir að kroppa nýgræðinginn í rigningunni.

Nú fer sprettan lokins á fullt skulum við vona:)

Silkihana slagur!

Hér voru veiddar Silkihænur sem voru orðnar ansi frekar með allt í kanínusalnum en þær rótuðu og tættu allt í tætlur og hafði ég ekki undan að sópa stéttarnar eftir þær og ungana.

Þessir ungar eru til sölu.


Kungfú taktar í þeim!
Þær fengu stóra kindakró til afnota með ungana sín og 3 hana sem að misstu sig algerlega í augsýn kvenfólksins og slógust af miklum móð!

Vonandi verða allir á lífi á morgun.

14.07.2012 14:10

Hryssur sónaðar og gelding

14 Júlí.

Nótt Hróksdóttir frá Ásgarði
Komin af stað með sitt folald undan Borgfjörð frá Höfnum.

Fía frá Strandarhöfði
Er komin af stað með Hróksafkvæmið sitt.

Hér var nóg að gera þennan dag en hún Unnur nýi dýralæknirinn okkar kom til að sóna gestahryssurnar hans Hróks sem reyndust vera komnar af stað með sín afkvæmi og fengu fararleyfi heim.


Gæfa ...........
Fylfull við Hrók frá Gíslabæ

Gæfa er móálótt hryssa sem ekki er vitað um upprunann þrátt fyrir að hún sé eyrnamörkuð.

Enginn virðist muna eftir henni en hún er mörkuð og fundust út nokkrir bæir en líklega er hún úr Skagafirðinum en þar þekkir enginn til hennar.

Markið á hryssunni er biti framan vinstra-standfjöður aftan og hægra eyra er alheilt.

Svolítið leiðinlegt fyrir núverandi eigendur hennar en það á að skrá hana í WF (ef hún finnst ekki í WF) og engir foreldrar á bakvið hryssuna.

Ef einhver kannast við  þessa hryssu væri voða gaman að fá að vita eitthvað meira um hana.

Gro og Bjössi frændi komu sama dag en Bjössi og Hebbi rifu Fergusoninn sem mest mæðir hér á í heyskapnum í tvennt en eitthvað var brotið sem olli því að olía lak ofaní kúplinguna þannig að hann snuðaði en það er ekki hægt að treysta almennilega á það fyrir traktor sem er með rúlluvélina.


Myndataka Anna M Ingólfsdóttir:)

Gro hjálpaði til í sónarnum og geldingunni og var flott að hafa hana með enda alvön svona aðgerðum konan:)


Allt gekk þetta vel og svo var komið af því að Mímir Astrósonur missti djásnin sín en hann var geltur og virtist nú ekki taka það mikið nærri sér og steinsvaf lengi vel á eftir og stóð svo upp og fór að kroppa.Takk kærlega fyrir frábærann dag Gro og Bjössi,þið eruð ómetanlegir vinir:)


10.07.2012 17:24

Þurrkar og heyskapur hafinn


Hér eru sannkallaðar náttuúrhamfarir í gangi hvað varðar þurrka.

Hebbi sem hefur búið í Ásgarði síðan 1959 hefur aldrei séð aðra eins þurrka og bruna á túnum og beitarhólfum.

Sem betur fer erum við búin að vera dugleg að senda frá okkur hross í SS og fækkuðum mikið af skepnum í fyrra og einnig á þessu ári þannig að við erum í þokkalegum málum þar.

Enn eru samt hross hér á viðbótargjöf og þannig verður það uns fer að rigna af einhverju viti.

Sláttur hófst í dag og er sprettan ásættanleg og hlakkar mig mikið til að fara að rúlla og pakka þegar að ég er búin að tæta svolítið úr heyinu í brakandi þurrki:)

Hingað komu góðir gestir frá Þýskalandi og Danmerku Landmótsdagana.

Embla Hróks með Auðnu Astródóttur

Einnig eru folöldin farin að seljast án þess að ég hafi verið búin að koma þeim inná sölusíðuna hjá mér en það eru ánægðir kúnnar sem eru að skila sér hingað aftur og vilja fá meira:)

Enn er ein hryssa hér óköstuð en líklega er hún að halda í sér vegna þurrkanna.

Góðar/slæmar fréttir af Buslunni minni.

Þessi elska á þremur og hálfum fæti,eineygð og gömul ætlaði að hjálpa mér niður í rétt um daginn en ég var að ragast í hrossum og hún sá að það voru einhver vandræði á kellingunni og steingleymdi sér og rauk inní réttina með offorsi og gelti!

Eitthvað gaf sig í veika fætinum og hún var svo kvalin að það var agalegt að horfa uppá hana.

Sem betur fer þá fengum við tíma hjá uppáhalds dýranum okkar og hún var röntgen mynduð í bak og fyrir.
 
Engar breytingar sáust á fætinum frá því að hún var röntgen mynduð síðast en við fundum það út að eitthvað hefur gefið sig í hnénu sem var að trufla hana.

Ég hélt að þetta væri hennar síðasta og bjó mig undir það að þurfa að kveðja hana.

Eigingirnin í manni er rosaleg en helst vill maður eig dýrin sín um aldur og ævi en því miður þá lifa þau miklu styttra en við.

En út komum við glaðar með góð verkja/bólgueyðandi lyf og kvaddi dýri okkur með þeim orðum að nú ætti Buslan bara að vera stofustáss á sínum lyfjum þartil hennar dagur rennur upp.

Nú er bara að passa að hún gleymi sér ekki aftur en hún er fljót að fara í sama farið og ætla að vera til gagns.

Lyfin virka meira að segja svo vel að hún er farin að hoppa útúr bílnum en henni hefur verið lyft upp og tekin niður undanfarið og þannig á það að vera.

Við verðum bara að fara að hafa vit fyrir henni og passa betur uppá hana þessa elsku.

Núna hrýtur hún nýböðuð og rökuð í bólinu sínu:)

Ég er að gera smátilraun með að rækta Sæta kartöflur.

Alltaf gaman að rækta eitthvað nýtt og spennandi og nú er komið að því að skella þeim útí matjurtakar og sjá hvað skeður.

Körin niður frá eru að verða full af allskonar grænmeti og góðgæti og ég er þegar farin að taka okkur salat á disk á kvöldin og það styttist í jarðaberin og Hindberin.

Freyja Imsland kom hingað ásamt pabba sínum og var mikið gaman að spjalla við þau og fórum við rúnt um hagana og skoðuðum hrossin og folöldin.

Þrá Þristdóttir var sallaróleg með reytinguna.

Freyja háreytti af miklum móð nokkur hross,sum voru alveg til í það að lána lokk af faxi sínu á meðan að önnur voru ekki par hrifin.


Hér gubbast útúr útungunarvélum hænuungar af öllum gerðum og stærðum.

Silkihænurnar eru svo rosalega duglegar að liggja á og unga út að við erum hætt að setja þeirra egg í vél.

Núna eigum við til sölu nokkra silkihænuunga:)

Ef þú hefur áhuga á að fá unga hringdu þá í mig í síma 869-8192 eða sendu mér tölvupóst á netfangið:)
ransy66@gmailcom


22.06.2012 15:50

Borgfjörð frá Höfnum seinna gangmál


Borgfjörð frá Höfnum er á heimleið og búinn að ljúka sínum störfum hér í Ásgarðinum og kynntist öllum sortum af kvenkyninu,smástelpum sem pískruðu af spenningi yfir honum,öðrum sem að hreinlega slógu hann og bitu ef hann vogaði sér að hnusa af þeim og svo fékk hann til sín einstæðar mæður með börnin sín en þær voru nú aðeins auðveldari viðfangs og kunnu sig betur í hestasiðunum.


Það bíður eftir honum annað holl af hryssum í Höfnunum og það eru laus 4 pláss undir hann þar en ég get mælt með þessum frábæra fola en ekkert mál er að bæta inná hann og dömurnar mikið velkomnar þó hann sé kominn í hólfið.

Borgfjörð sýnir tölt og brokk undir sér með fínum hreyfingum og skeiðið er einnig til staðar.

Folatolli undir þennan yndislega höfðingja er stillt í hóf eða 25.000-krónur.

IS2009125771
Borgfjörð frá Höfnum

Faðir:Aðall frá Nýjabæ 8.64 (skeið 9.5)
FF:Adam frá Meðalfelli 8.24 (skeið 8.5)
FM:Furða frá Nýjabæ 8.06 (skeiðlaus)

Móðir:Perla frá Neðra-Skarði
MF:Darri frá Enni
MM:Elding frá Syðri-Reistará

Hafið samband við
Bogga 8926904
eða Eygló 8956904

Ef þið viljið vita eitthvað nánar um folann þá getið þið sent mér netpóst ransy66@gmail.com

22.06.2012 01:13

Eðja köstuð 21 Júní


Eðja kom með vindótt merfolald,gaman væri ef hún yrði nú litförótt líka:)


Sibbin í góða veðrinu:)
Hún er svo fín og flott þessi dama að okkur langar til að eiga hana en líklega endar hún á sölulistanum því það er ekki hægt að eiga allt þó manni langi til.

20.06.2012 15:31

Skjóna köstuð 20 Júní


Skjóna og Astró eignuðust þennan flotta strák.

16.06.2012 23:02

Mön köstuð 16 Júní

Mön gamla kom með rauðlitföróttan hest undan Vála frá Ásgarði en foreldrarnir eru báðir litföróttir og sú gamla hefur áður átt með litföróttum stóðhesti og það klikkaði ekkert þar.
Hún hefur komið með 9 litförótt folöld og mörg af þeim ansi flott:)


Framhald síðar,verð að fara út að vinna!

Um mig

Nafn:

Ingibjörg Rannveig Ingólfsdóttir (Ransý)

Farsími:

869-8192

Afmælisdagur:

25 Júlí

Heimilisfang:

Ásgarði

Staðsetning:

250 Garði

Heimasími:

422-7363

Um:

Ég er með hestabakteríuna ógerlegu einsog svo margir aðrir.Náði mér í bónda og fór að búa með honum Hebba mínum í Ásgarði 1998.Muna að kvitta í gestabókina!Njóttu.

Kennitala:

250766-4839

Bankanúmer:

0157-05-400339

Tenglar

Fána teljari

free counters

Eldra efni

Flettingar í dag: 775
Gestir í dag: 161
Flettingar í gær: 314
Gestir í gær: 140
Samtals flettingar: 208460
Samtals gestir: 23186
Tölur uppfærðar: 24.9.2023 15:18:02