Heimasíða Ásgarðs

Færslur: 2011 Mars

29.03.2011 18:50

Tenglar að detta út!?Eitthvað er kerfið að stríða þeim hér hjá 123.is og okkur bloggurum en ég sá og er búin að fá kvartanir yfir því að Svanur í Dalsmynni (Lifandi bloggarar) var dottinn út hjá mér og meira en það,hann datt líka útaf listanum yfir 20 vinsælustu síðurnar hjá 123.is.

Nú er ég búin að laga þetta og það verður gaman að sjá hvort að Svanur og frú detta ekki inná listann aftur:)

Ef einhverjir fleiri eru dottnir út eða vilja hafa tengilinn sinn inni hér þá endilega láta mig vita í netfangið
ransy66@gmail.com
Vinsælastar hjá mér eru alíslenskar síður sem einhver hreyfing er á af og til.
Farin út í vorveðrið að gera eitthvað af mér!

27.03.2011 14:45

Ungar að klekjast út og matjurtaræktunin


Ameraukana ungar.

Það gekk ekki nógu vel að unga út hjá okkur úr síðustu eggjum en líklega höfum við klúðrað þessu sjálf með því að færa eggin á milli véla.

Silkiungi vinstra megin en Ameraukana unghani hægra megin.
Eini unginn undan hana heitnum og vonandi arftaki pabba síns:)

En eitthvað fengum við af ungum sem eru lífvænlegir og fallegir og núna bíð ég eftir því að geta kyngreint þá og í þetta sinn eru hanar velkomnir því hænurnar misstu herrann sinn óvænt en hann varð bráðkvaddur öllum að óvörum.


Ameruakana hæna vonandi:)

Mig grunar að mýsnar hafi jafnvel borið eiturkornið úr kössunum og haninn hafi komist í það.

Hér eftir verða bara notaðir eiturkubbar sem að mýsnar ná ekki að bera um allt en þær taka kornið og bera það útúr kössunum og í holur sínar að sögn meindýraeyða sem hingað koma og selja okkur eitur.

Mín er að forrækta matjurtaplöntur útí bílskúr og þar fær maður heldur ekki frið með neitt.

Lítil óþekktarmús komst í plönturnar mínar og tók sig til og gróf upp fræin og þegar að þau fræ sem eftir urðu að jurtum þá kom músarskömmin og át laufblöðin ofanaf plöntunum!

Matjurtaspillirinn í gildrunni.

Kallinn var fljótur að spenna upp gömlu góðu músagildrurnar og í nótt náðist skemmdarvargurinn en auðvitað þurfti hún að naga fyrst blöðin ofanaf litlu plöntunum mínum áður en hún ákvað að smakka á hnetusmjörinu í gildrunni.


Ég verð bara að kaupa meiri fræ og hamast sem óðust við að setja niður enda vor í lofti og allt að ske!

Hafið það gott í góða veðrinu elskurnar mínar:)

22.03.2011 11:11

Óþekktarfolöld í Ásgarðinum!


Mímir frá Ásgarði til sölu/for sale

Í dag var gjafadagur hjá stóðinu og allir orðnir vel svangir eftir kolbrjálað veður sem gekk hér yfir í gær/nótt.

Með réttu átti að gefa í gær en veðrið hamlaði því að nokkuð yrði gert útivið.

Meðan ég drakk kaffisopann minn um hádegið og horfði útum gluggann á stóðið bíða við hliðið þá brá mér heldur betur í brún.

Ægir frá Ásgarði til sölu/for sale

Sé ég hann Ægir Stórstjörnu/Astróson teyga af krafti mjólkina úr henni Heilldaís!


Ekki tók nú betra við þegar að hann var búinn að fá nægju sína en þá komu þeir vinirnir Gulltoppur Freistingar/Hrókssonur og Mímir Fjalladísar/Astrósonur og stilla sér upp sitthvorumegin við þá gömlu og totta svo ákaft úr henni mjólkina!!

Gulltoppur frá Ásgarði

Sú gamla er greinilega geld og enn að mjólka sínu eigin folaldi og þegar að ólétturnar voru að geldast upp og fóru að sparka sínum folöldum frá sér þá hafa þeir áttað sig á þessu fimm stjörnu júgra þarna hangandi neðan í henni Heilladís og ekki verið lengi að semja við þá gömlu að fá að vera með dóttur hennar um herlegheitin!


Núna skil ég hversvegna sú gamla sem er að verða 22 vetra er ekki nógu fín í holdum hjá mér.

Hún er laus í holdum en rifbeinin finnast glatt og ekki gaman að vita af henni í þessu þjónustuhlutverki og dreif ég mig strax út til að kippa inn sökudólgunum sem voru ekki alltof hamingjusamir með mig.

Heilladís hefur áður tekið að sér folald en það skeði hér fyrir 5 árum að hryssan hennar Röggu vinkonu varð bráðkvödd hér niður á bakka og eftir stóð nokkurra daga gamalt merfolald.

Heilladís frá Galtarnesi með Sif og Von.

Ég ákvað að gefa þessu sólahring og skerast svo inní leikinn og gefa því en næsta dag þá var sú stutta komin undir hana Heilladís sem mjólkaði ofaní hana og sitt eigið folald sem er hún Sif í dag.


Von og Sif eru hinar vænstu í dag og Von er komin í tamningu inná Mánagrund en Sif varð svona ofboðslega skotin í honum Astró í fyrra að hún fékk að hitta hann og gengur hún með annað afkvæmið hans núna.

19.03.2011 23:56

Áttu flottan litastóðhest?


Astró og Eðja að búa til bleikvindótt/litförótt?

Er með kaupanda að góðum stóðhesti í flottum lit.


Hesturinn verður að vera undan 1 verðlauna foreldrum.

Óskalitirnir eru Bleiklitförótt,móvindóttur,móálóttur,moldóttur eða fallega skjóttur þarsem hvítt er ekki nema cirka 50% og alsekki með hvítt andlit(Slettuskjótt).

Fleiri litir koma vel til greina.

Þetta er kannski svolítið langsótt en þarsem væntanlegur kaupandi á næga seðla þá ert vert að reyna að auglýsa fyrir hann ekki satt:)

Ef þú ert með draumastóðhestinn handa þessum manni þá
vinsamlega hafðu samband við mig í síma 869-8192 eða í
netfangið


ransy66@gmail.com


Myndir og lýsing á grip vinsamlegast fyrirfram þakkaðar:)
Vídeó væri líka alveg toppurinn!

17.03.2011 15:26

Ugla sat á kvisti........


Brandugla

Ég var á ferð um daginn í Grindavík og þá gekk ég næstum á þessa Brandugla sem sat hin rólegasta á staur og góndi útí loftið.

Hún sat sem fastast á meðan að ég færði mig nær og nær með cameruna og stundum varð ég að blístra á hana til að hún liti nú í linsuna en ekki eitthvað útí loftið:)

Á svona mómentum á maður að hafa fullhlaðin batterýin og cameruna heita en ekki við það að frjósa eftir hvern smelltann ramma en það var rosa kalt þennan dag.

En ég er nú soldið ánægð með árangurinn samt:)

13.03.2011 23:05

Lappi lappalangi farinn heim


Lappi og Tobba Anna

Hann Lappi síðasti hvolpurinn úr gotinu hjá Tobbu Önnu var sóttur í gær og er hann verðandi minkaveiðbani í Borgarfirðinum.

Hann fór á flott heimili en hann er orkubolti mikill en mjög skemmtilegur og öskufljótur að læra.

Ég dró vanalega úr því við fólk að taka hann vegna þess að ég vildi að hann færi þarsem hann kæmist í vinnu en mig grunar að hann hafi verið of vinnusamur til að geta orðið góður sófahundur.

Nú bíð ég spennt eftir fréttum af honum Lappa og vonast til að hann verði nú duglegur minkaveiðihundur eins og mamma sín og pabbi.

11.03.2011 19:18

Hrossafréttir úr Ásgarðinum


Vilji og Súsý á harðahlaupum. Mynd Valgerður:)


Hann Vilji Astrósonur er aldeilis búinn að hrista af sér öll veikindin en hann veiktist frekar illa af hestaflensunni síðastliðið haust og þurfti að fá tvívegis pencillín gjöf í 5 daga hvort skipti.

Hann er þunnur í holdum ennþá en þetta smá kemur hjá honum.
Hann er algjört augnakonfekt á að líta en hans aðall er gríðarleg yfirferð á brokki með miklu svifi og fótlyftu.
Svo rúllar hann á töltinu með glæsibrag.

Ég fór í dag og skoðaði útiganginn og ég tók undir þær Heilladís,Skjónu mína,Litlu-Löpp og Freistingu og eru þær allar enn að mjólka og í bullandi hárlosi útí þessum kulda.


Ég er ekki alveg viss hvort að Heilladísin sé með folaldi í ár en í hitteðfyrra var hún geld og það eftir Hrók sem segir mér að nú sé eitthvað að fara að klikka hjá gömlu minni.

Röskva Astró/Heillardísardóttir.

Núna gengur undir henni gullfalleg hryssa undan Astró sem ég ætla að eiga og gerði sú gamla mér þann greiða að hafa hana líka í lit en hún er brúnsokkótt með væng.


Hinar hryssurnar eru líklega allar með fyli en þetta kemur allt í ljós betur þegar að líða tekur á vorið.

Saltþörfin hjá stóðinu var gríðarleg í haust og setti ég nýja  vítamínfötu til þeirra seinnipartinn í haust en hún er núna hálf sem segir mér að hjá stóði sem telur cirka 23 hross þá er heyið mjög gott og gjöf í lagi úrþví að fatan er bara rétt hálfnuð núna í Mars.


Dýralæknar gerðu mann svo logandi hræddann þegar að flensan gekk yfir og þeir hömruðu á því að hrossin þyrftu að hafa salt og steinefni og líka vítamínfötu hjá sér þannig að hér voru keyptar ef ég man rétt 3 vítamínfötur á síðasta ári.

Var þeim útdeilt samviksusamlega,ein í tittahólfið,önnur í réttina við hesthúsið þarsem takmarkað aðgengi var að henni og þriðja var geymd til haustsins og sett inná vetrarbeitina.

Fyrir nokkrum árum heyrði ég það að ung folöld ættu ekki að vera nærri slíkum fötum því að þau gætu fengið hjartsláttartruflanir ( ef að þau detta í það) og svo sannfærðist ég enn betur um að slík fata á ekki að vera þarsem ung folöld eru eftir að hafa lesið bók Ingimars Sveinssonar  en þar segir hann sá mikli snillingur að meltingarvegur folalda innan við 6 mánaða ráði ekki við það.


Maður er altaf að reyna að sanka að sér fróðleik sem nýtist skepnunum á bænum svo maður geti verið stoltur af því sem maður er að bauka við hér:)

04.03.2011 00:42

Rúningur yfirstaðinn

Hingað komu galvaskir rúningsmenn og sviptu kindunum úr reyfunum en þeim var orðið ansi heitt og orðnar móðar í ullinni sinni.


Toppur frá Hólabrekku á rassgatinu:)


Dóra forystukind sem mér þykir mikið vænt um:) 7-8 ára nagli og hraust með afbrigðum!

Dóra ætlaði aldeilis að snúa vörn í sókn og tækla rúningmanninn en það gekk ekki upp:)


Brynja Beauty bað um Justin Bieber klippingu en ég held að hún hafi aðeins mistekist:)


Sibba Gibba verðandi þríburamóðir,sjálf þríburi:)


Frakkur Forksonur alveg laus við að hafa allt á hornum sér.


Toppur hinsvegar gæti gert það en hann er nú svo mikil dúlla og dekur þessi elska að hann gerir ekki svoleiðis.

Eða þangað til einn daginn að maður gleymir sér og snýr rassinum í hann hehehehehe...........:)


Hann hélt að við myndum þiggja hjálp um daginn þegar að Frakkur lét illa við okkur en það var nú ekki að ástæðulausu en við vorum að setja fullorðinsmerkin í hann og fann greyið til við aðfarirnar hjá okkur hjónunum.
Toppur renndi sér í hann við lítinn fögnuð okkar.
Krissa náði því uppá video með símanum sínum,soldið dökkt en samt furða hvað hægt er að gera með þessum símum nú til dags!
  • 1

Um mig

Nafn:

Ingibjörg Rannveig Ingólfsdóttir (Ransý)

Farsími:

869-8192

Afmælisdagur:

25 Júlí

Heimilisfang:

Ásgarði

Staðsetning:

250 Garði

Heimasími:

422-7363

Um:

Ég er með hestabakteríuna ógerlegu einsog svo margir aðrir.Náði mér í bónda og fór að búa með honum Hebba mínum í Ásgarði 1998.Muna að kvitta í gestabókina!Njóttu.

Kennitala:

250766-4839

Bankanúmer:

0157-05-400339

Tenglar

Fána teljari

free counters

Eldra efni

Flettingar í dag: 169
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 255
Gestir í gær: 97
Samtals flettingar: 213957
Samtals gestir: 24506
Tölur uppfærðar: 2.10.2023 04:10:42