Heimasíða Ásgarðs

Færslur: 2008 September

29.09.2008 14:37

Kindaþukl og kukl og klukkuð.....


Tvær nýjar dömur í safnið mitt emoticon ! Uppáhaldliturinn ásamt mórrauðu sem enn vantar.

Jæja"þá eru lömbin farin í slátúrhúsið og komin í kistuna.
Meðalvigtin var góð eða 17 kg (skildi heimalningana eftir heima.
Förum nú ekki að láta þá eyðileggja fyrir okkur emoticon .

Ég má bara vera ánægð með útkomuna að sögn fróðra manna/kvenna en ekkert fór í óæðri flokka og gæðin mjög svo ásættanleg.
Ég gæti gert betur í ræktuninni ef ég hefði sett á hann Tótu/Flankason á,en þetta var svaka drellir sem vóg 20 kg skrokkurinn af honum og gerðin frábær og hann sem var tvílembingur á móti henni Drottningu sem enn finnst ekki tangur né tetur af!
Djö...............sé ég eftir þeirri gimbur!

Tóta litla tindilfætta.

Alveg er það merkilegt að hún Tóta litla kind sem er allra minnsta kindin hér á bæ gefi svona flotta tvílembinga.

Bara góð og ég verð að fyrirgefa í henni þetta eilífa (brauð) jarm í hvert sinn sem hún sér mann en hún hefur eitt það mest skerandi jarm em ég hef heyrt frá kind!
Við getum sjálfum okkur kennt að hafa ofdekrað hana svona með brauði.

G-Hraunu og Flankasonur sem tekur við af Flanka pabba.

Við settum á samt annan Flankason en það var svosem fyrirfram ákveðið en hann er undan kind sem ég hef mikið dálæti á.
Gamla Hrauna er hún kölluð og er hin vígalegasta að velli,mjólkar alveg svakalega og móðurgenin í flottu lagi.

Með því að nota hrút undan henni þykist ég vera að ná fram nokkrum eiginleikum sem ég vil hafa í mínu fé,mjólkurlagni,frjósemi,gott geðslag,frekar háfætt og langur búkur.
Ég vil heldur háfættara og kannski aðeins minna ket heldur en stuttfættara með meira ket og missa það í afveltu.
Mín sérviska emoticon .

Brynja Beauty og Forysta.

Nú svo eru þær komnar heim úr Fjárhólfinu hér í Sandgerði þær Brynja Beauty og Forysta.
Ekkert smá vænar og stórar orðnar stelpurnar okkar.
Fyndið að sjá hve fullorðinslegar þær eru orðnar í framan.Hebbi ætlaði ekki að þekkja þær í réttinni þegar að hann sótti þær!

Ég var klukkuð af fjárkonu mikilli norðan úr Húnavatnssýslu emoticon
Hér er hennar skemmtilega blogg:
http://www.123.is/storholl/

Fjögur störf sem ég hef unnið við um ævina:

1. Fiskvinnslu (Loðnu,Síld,Skreið,Saltfisk..... og láttu þér detta  það í hug)


2. Fjárgæsla og hrossagæsla


3. Allskyns verslunarstörf (Blómabúð,fataverslun,og fleira)


4. Flest störf hjá IGS í Leifstöð td,þrif á flugvélum,eldhúsum,og bara öll fokking flugstöðin:)

 

Fjórir staðir sem ég hef búið á um ævina:

1. Reykjavík

2. Keflavíkurflugvelli

3.Njarðvík

4. Keflavík

5.Garður

Og svo mætti lengi telja fleiri staði en ég held að ég sé búin að eiga heima á cirka 25 stöðum um ævina.


Fjórar bíómyndir sem ég held upp á:

1. Black Beauty


2. Lord of the Rings myndirnar


3. Lassie come home (fyrsta myndin sem ég man eftir frá því ég var pínkulítil:)


4. Jonh Travolta (bara allt með honum á tjaldinu! Aðaldúddinn minn í den:)

 


Fjórir sjónvarpsþættir í uppáhaldi:

1. British Top Model (kannski af því að Huggy Ragnars fékk að fara á hestbak hjá mér á Funa gamla og líkaði vel:)Annars varð ég pínku móðguð þegar að hún var búin að fara prógrammið fet-tölt-brokk-stökk/valhopp og hún klikkti út með því að valhoppið hefði verið skemmtilegast!!!


2. Dr.Phil (Ég festist við skjáinn ef ég byrja að horfa á þennan þátt)


3. Criss Angel Mindfreak (klikkaður dúddi með allskonar frábærar brellur)!


4. Survivor (Ég missi mig alveg í þessum þáttum:)

 

Fjórar bækur sem ég hef lesið oftar en einu sinni:

1. Sörli sonur Toppu og Trygg ertu Toppa (á þessar bækur og las þær fyrst sem unglingur)


2. Þjóð bjarnarins mikla-Dalur hestanna-Mammútaþjóðin -Seiður sléttunnar-Hellaþjóðin (Þessar eru geggjaðar)


3. Hestaheilsa er náttúrulega lesin oft á ári!

4. Samband Hests og knapa eftir Rikke Mark Scultz (Gríðalega mikill fróðleikur í þessari bók:)


Matur sem er í uppáhaldi:

1. Svið elska ég................!


2. Kjötbollur í brúnni sósu með sultutaui og alles.........!

3. Steiktur fiskur í raspi.....nammi namm:)


4. Önd alin upp hér á hlaðinu og einnig er Fashani eitt það besta fuglakjöt sem ég hef borðar!!


Fjórar síður sem ég heimsæki daglega (fyrir utan bloggsíður):

1. hestafrettir.is

2. leit.is

3. vedur.is

4. 847.is

 

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:

1. Þýskaland

2. Austurríki

3. Swiss

4. Ítalía

 

Fjórir staðir sem ég myndi vilja vera á núna:

1. Í kaffi á Hrauni í Grindavík (Að mal stanslaust um kindur,kýr og hesta:):):)Kannski mest um hesta!:)


2. Í sumarbústað í Skorradal (Og hlusta á kyrrðina og horfa á laufskrúðið í haustlitum)


3. Hjá Þórði í Haga með myndavélina með mér og taka myndir af honum með Jarp gamla spenntann fyrir heyvagninum.Á einhver tímavél?

4. Í Viðidalstungurétt í góða veðrinu núna og fullt af hrossum:)


Fjórir bloggarar sem ég klukka:


1. Valgerður á Hrauni ( Ég veit............hehehehe.....:)


2. Helga Skowronski (Þú hefur nægann tíma.... NOT.....en samt:)


3. Ásbrúnar bloggarar:) Þetta er BARA gaman:)


4. Dímon Glampasonur:) Sjáum til hvort hann vaknar ekki af haustdvalanum hehehehehe.......:)

Farin út í verkin mín emoticon .

 

22.09.2008 02:35

Grindavíkur smali lokið


Þá er smalinu í Grindavík lokið þetta árið.Kannski einhverjar örfáar skjátur eftir sem verða heimtar seinna meir þegar að þær sjást og láta í sig nást.
Veðrið nánast lék við menn og skepnur og varla kom dropi úr lofti á meðan á smalinu stóð.

Féð rennur veginn með hrjóstrugt hraunið á báða bóga.

Allt gekk vel enda sú nýbreytni höfð að reka féð heim á tveimur dögum (var gert líka í fyrra) og reka það eftir veginum en ekki yfir hraunið sem er ansi illt yfirferðar bæði fyrir féð sjálft og hrossin og ég tala nú ekki um gangandi smala.

Við Hebbi mættum í smalið en ég var ekki alveg tilbúin í að mæta með hross núna.
Eitthvað er maður að eldast smám saman emoticon .

Það var gaman að sjá allan þennan flota af fé og mikið var af mislitu enda margir hobbýbændur sem áttu þarna kindur.Einhvernveginn vill það fara svo að við sem erum með færra fé og erum að þessu kindastússi mest til gamans sækjumst í að hafa mislitt fé.

Komnar í sjálfheldu að mér fannst!

Þarna voru líka ansi skrautlegar kindur af forystukyni og voru þær áberandi óþekkar skjáturnar!
Ég er mikið fegin að hafa verið stoppuð af fyrir nokkrum árum að kaupa kindur af þessum sama stofni en bændur hér í Sandgerði þverneituðu okkur um að taka þær í sín hólf og fussuðu of sveiuðu mikið!

Þær létu sig bara gossa niður!

Ég skil það vel eftir að hafa séð hve þverlyndar þær eru og hegðuðu þær sér einsog þær væru Fjallageitur í klifurkeppni!


Obbosí......soldið stuttir fætur til að komast hjálparlaust hnakkinn.

Mikið hef ég gaman af að sjá ungviðið ríðandi í smali einsog ekkert sé.
Og ekki verra að sjá sama hrossið með krakka ár eftir ár í hestaferðum og smali einsog þessa litföróttu hryssu sem stendur sig einsog hetja þótt árin séu að færast yfir hana og ferðirnar orðnar margar hjá henni.


Sú litförótta komin með annan knapa heldur minni emoticon .
Set myndir úr smalinu inní albúm á morgun ásamt fullt af nýjum linkum emoticon .

 

19.09.2008 17:21

Drottning Flankadóttir týnd!

Hún Drottning ásetningslambið hans Hebba er týnd og tröllum gefin!
Líklegast er að hún hafi hrakist undan veðri og vindum en í gærmorgun voru allt uppí 32 metrar á sekúndu í hviðum hér við Garðskagavita.
Við erum búin að labba fjöruna,bakkann líta ofní allar gjótur og glufur en ekkert finnst.
Enginn Hrafn á sveimi eða Mávur sjáanlegur í hræi.


Drottning er hægra megin á myndinni með svartar rendur í hornum.

Ef þið hafið séð eða hafið heyrt um lamb á ráfi annahvort í Garðinum eða á milli Garðs og Sandgerðis þá endilega látið okkur vita í Gsm 869-8195 eða 896-4763.
Netfang
busla@simnet.is


17.09.2008 17:44

Réttir framundan


Afvelta stolt með gimbrina sína.

Nú byrjar aðal gamanið á haustin en það eru bæði fjárréttir og stóðréttir framundan ásamt því að sjá út hvað skal setja á og hvað skal fara í kistuna sem vetrafóður fyrir okkur mannskepnurnar.
Ekki etum við heyrúllur en hinsvegar etum við það sem etur rúllurnar ekki satt.

Tóta og Drottning hennar að klóra hvor annari.

Tótu Flanksonur gulur.

Á næstu helgi verður smalað í Grindavíkinni og þangað er stefnan tekin.
Það er alltaf líf og fjör í þeim samalamennskum og hart barist um að láta sem hæst í sér heyra og allir að stjórna öllum.
Ég geri bara einsog minn Fjallkóngur og mín Fjalldrottning segja mér og hefur það gengið afbragðsvel hingað til.

Karen kind með þrílembingana sína.

Sem betur fer þá er búið að skipta smalinu þar niður á tvo daga,bæði fyrir skepnur og menn.
Þetta var ekki sniðugt að fara þetta á einum degi með féð enda sprungu iðulega einhverjar kindur og leiðinlegt að horfa uppá þær greyin lafmóðar með tunguna niður að hnjám upp og niður fjöllin og í gegnum hraunin.

Hermína heimalningur ásamt dóttur að betla brauð emoticon !

Hin Hermínu Flankadóttirin.

Mínar kindur sleppa vel við hlaup enda brauðrollur hinar mestu og kalla ég þær bara inní rétt og þaðan inní hesthús á haustin.

Reyndar fóru þær Forysta og Brynja Beauty í hólf í sumar og þær verða nú bara reknar spottakorn og svo handsamaðar í rétt og beint uppá kerru og keyrt heim.

Nú er bara spurningin hjá mér hvaða hrút skal setja á en hann Flanki fékk að fjúka yfir móðuna miklu í vor en kauði var farin að nota hornin heldur óspart á hann Hebba minn sem mátti ekki lengur snúa í hann baki þá renndi hann sér í afturpartinn á kallinu!

Eitt er víst að sá hrútur sem skal settur á núna verður Flankasonur undan rosalega verklegri og frjósamri kind sem mjólkar alveg svakalega.

Gamla Hrauna vinkona mín.

G-Hraunu og Flankasonur ljósari

G-Hraunu og Flankasonur dekkri.

Ég kalla þá kind Gömlu Hraunu en hún er af gamla kyninu hennar Valgerðar vinkonu á Hrauni.
Snilldargripur sem minnir mig mikið á féð sem var á Hæli í Húnavatnssýslu þegar ég var unglingur.
Þar fékk ég nú reyndar alveg uppí kok af að hlaupa á eftir skjátum en í dag er ég búin að jafna mig með hjálp Valgerðar en ég fékk hjá henni meðferð við sauðfjárógeði og er alveg að finna mig í þessu rollu brasi í dag með góðri hjálp frá henni emoticon .

16.09.2008 01:08

Söðlaviðgerðir hjá Helgu Skowronski

 Söðlasmíðaverkstæði Dalsbú,Helgadal 270 Mosfellsbæ

Tek að mér viðgerðir og almennt viðhald á reiðtygjum.

Fagleg og vönduð vinnubrögð.

 

 

 Upplýsingar fást hjá Helgu Skowronski í síma

566-7380/ 897-7233

Eða í tölvupósti

skowronski1000@yahoo.com

Ég gat bara ekki orða bundist þegar að vinkona mín hún Helga Skowronski var búin að þramma um allan Mosfellsbæinn með bunka af auglýsingum einsog þessi hér að ofan og á eftir henni virstist ganga "draugur"og reif hann/hún auglýsingarnar jafnharðann niður og Helga setti þær upp!
Ég vil koma því á framfæri hérmeð að Helga Skowronski er menntaður Söðlasmiður frá Bretalandi og virkilega fær á sínu sviði og núna í September er 15% afsláttur af viðgerðum á Reiðtýgjum hjá henni emoticon.
Endilega kíkið á síðuna hennar Helgu 
http://www.123.is/helgadalshestar/default.aspx?page=blog
en þar er ýmislegt skemmtilegt að ske.
Þess má geta að Helga er lunkinn tamningarkona enda Hólaskóla gengin og hefur hún átt því láni að fagna að geta lesið í hæfileika hjá hrossum og virðist nokkuð sannspá stelpan þegar að kynbótadómum kemur emoticon .
Ein spurning til þín Helga!
Geturðu yfirfarið hnakkinn minn fljótlega eftir smal?
Stoppið í honum er eitthvað farið að gefa sig öðrumegin og pressast of mikið þeim megin sem ég stíg alltaf á bak sem veldur því að hann snarast útá aðra hliðina sama hvað ég herði emoticon !

 

15.09.2008 02:00

Haustið að skella á


Nú er haustið skollið á og allra veðra von.Ég fyllist alltaf trega þegar að ég sé trén og annan gróður fá á sig liti haustsins en það er líka tími uppskeru fyrir bæði fjórfætlinga og tvífætling.
Tré svigna af berjum og margt skemmtilegt og fallegt er hægt að gera við þau ásamt laufum  í regnbogans litum en þennan glæsilega heimagerða ískertastjaka hér fyrir ofan sá ég fyrir austan en hann er gerður úr hinum og þessum laufum ásamt berjum af Reynir og einhverju öðru sem ég kann ekki að nefna.
Bara flottastur!

Afvelta afvelta.....eða að fá lit á kviðinn emoticon .

Hross og kindur keppast við að bæta á sig holdum til að takast á við veturinn og kom það sér afar illa fyrir hana Atfveltu kind en hún varð afvelta hér tvisvar sinnum á tveimur dögum.
Hún er vön en þetta gerði hún líka tvisvar sinnum í fyrra.
Ég er heldur betur hrædd um að ég verði að senda hana í bling bling......... húsið,þetta hvíta með rauðu stöfunum áður en hún fremur sjálfmorð hér fyrir allra augum!

Má maður leggja sig aðeins eða.....emoticon

Mig rak á rogastans hér síðastliðinn Föstudag þegar að ég var niður á bakka að girða en ég sá mann á harðaspretti útá sjó!
Fyrst var ég ekki að skilja á hverju hann stóð sem fór svona hratt yfir en auðvitað var það flugdreki eða eitthvað apparat sem hann stýrði með snilld í rokinu!
Djö...........var hann klár!

Nú svo bættist annar við ekki síðri á bretti með segl og ef það hefði ekki verið fyrir Suðurnesja rokið og lætin í veðrinu þá hefði ég haldið mig vera komna útí hin heitu lönd eftir að hafa sest niður og fylgst með þessum flinku köppum dágóða stund.
Segiði svo að Suðurnesja rokið komi sér ekki vel á stundum!
Þar til næst emoticon .

14.09.2008 20:55

Tilraunablogg

Smá tilraunablogg vegna breytts vinnu umhverfis hjá 123.is.

Fashanaungar frá í sumar.

Vá!Það gekk að festa þetta blogg inn með OFURHRAÐA Valgerður!
Um leið og ég smellti á "vil vista færsluna"þá small hún inn samstundis!
Hvað er ekki að virka hjá þér?

11.09.2008 14:24

Niðurrifsfréttir úr Ásgarðinum

Smá blogg svona úr því að ég er orðin nettengd á ný!
Og búin að fá sjónvarp aftur OG gemsa!
Ein var orðin soldið fúl núna síðustu dagana .
En nú brosi ég á ný .

1 September hófst hér vinna við að rífa niður gamla verkstæðið
 í Ásgarði en hluti þess hefur lengi vel verið við það að yfirgefa okkur í verstu veðurlátunum undanfarin ár.
Alveg merkilegt samt hvað það hefur tollað hér lengi!

Þeir hafa verið röskir við þessa vinnu sína strákarnir en Óskar og Addi hafa verið aðalsprauturnar og gengið alveg svakalega vel.Þvílíkir dugnaðarforkar þessir tveir dúddar .

Niðurrifið tók ekki marga daga eftir að öll helstu verðmæti höfðu verið flutt út en þarna úði og grúði af allskonar misdýrmætum hlutum.
Hebbi minn átti ábyggilega voðalega bágt en ég sá að hann beit á jaxlinn og ýmislegt fékk að fara sína síðustu ferð á haugana.

Ég fyllti td eitt fiskikar af mínum dýrmætu hlutum sem eru verkfærin mín sem ég hef notað við að gera við reiðtygi.
Eitthvað fékk samt að fara í ruslið en ekkert sem mátti ekki missa sín og það kannski fyrir mörgum árum.

Enduruppbygging hófst svo og hér koma og fara allskonar bílar með steypu,möl og annað sem ég kann ekki að nefna.

Þetta verður allt annað líf þegar að verkstæðið verður komið aftur í nothæft ástand,allt miklu rýmra og betra og ég fæ aftur horn fyrir verkfærin mín og þá verður nú sest aftur niður og hnoðað og dundað við beisli og múla og annað sem þarfnast viðgerðar.

Farin út að taka myndir af Hrók og kærustunni hans ! Sú nýjasta sem kom til hans um daginn er sko búin að fara í heilann hring og nú sér hún ekki sólina fyrir honum og heimtar gott í kroppinn og leggur hann í einelti !!! 
Ég smellti mynd af ástfangna parinu í einum grænum Selma .

Gesta Blesa er með Hrók undir smásjá og víkur ekki frá honum.

Hún horfir á hann hugfangin og það er alveg sama hvað hann gerir,pissar eða leysir vind hún er rokin uppað honum með aðdáunarhneggi hehehehehehehe............!

06.09.2008 23:13

Álfhólar heimsóttir

Ég brá undir mig betri fætinum í dag ásamt Valgerði og Herði og skruppum við til hennar Söru að Álfólum.
Valgerður var eitthvað að hrossabrestast en það getið þið eflaust lesið um á hennar síðu fljótlega .
http://www.123.is/hrauni/

Ég fékk bara að fljóta með því ég er svo afskaplega skemmtileg manneskja að ferðast með .
Ég tala nú ekki um ef minnst er að stoppa í sjoppu! Þá verð ég extra jákvæð og gleðin skín hvert sem á mig er litið .

En aftur að Álfhólum.Við lentum þar rétt uppúr hádegi og auðvitað var Sara úti að temja og fylgdumst við með hvernig hún tantraði ungan fola sem varð einsog bráðið smjer í höndunum á henni.
Lúnkin stúlkan sú.

Dimmir og Sara útí mýri að leika listir sínar.

Eftir tamningarnar og allar hestahvíslanirnar var för okkar heitið útí stóru mýrina en þar var hann Dimmir frá Álfhólum með sínum merum og var hann ekki lengi að koma þjótandi þegar að hann sá að hestakerra var mætt í hólfið hans enda veit kall hvað það þýðir .
Ein daman enn og munaði drenginn ekkert um það enda búinn að standa sig vel í hryssunum í sumar.

Sara þarf ekkert að nota hnakk eða beisli á Dimmi sinn .

Sara snaraði sér á bak Dimmir og þau sýndu okkur nokkrar kúnstir og svo reið hún um hagann á honum beislislaust og berbakt!
Sleffffffffffff.........................mig langar í svona hest!

Sjáið þennan snilling og Söru á Youtube.com hér:Enda fórum við Hebbi með hana Toppu gömlu Náttfaradóttur undir hann í sumar því okkur langar svo mikið í hest/hryssu með Spænska sporið í genunum .

Toppa er búin að vera hjá Dimmir og var sónuð í gær en það var ekki hægt að segja það alveg með vissu hvort hún var fengin eður ei en hún fær bara að vera áfram hjá honum enda undir hún hag sínum vel á Álfhólum.
Svo vel að sú gamla hljóp bara í burtu þegar að hún sá mannaferðir og heyrði mig kalla!
Hún ætlar sko ekki að missa af öllu þessu grasi hehehehehehe.............Átvagl!!!

Toppa með hana Drottingu Askdóttur.

Á heimleiðinni tók ég eftir því að ég var búin að týna gemsanum mínum!!!
Hmmmmmm....................gott eða vont mál????
Það var alveg ótrúlegur friður búinn að vera fyrir honum en..................ég held að ég verði að fá mér bara nýjann enda sá gamli orðinn nokkurra ára og kannski tímabært að endurnýja.

Þið sem verðið að ná tali af mér hringið þá bara í heimasímann sem er 422-7363 eða í Hebba gsm sem er 896-4763 eða  sendið póst á busla@simnet.is

Þartil næst,farið varlega .

02.09.2008 01:43

Ullapöddur í Ásgarði!!!

Veðrið lék við hvern sinn fingur í dag og hvert sem litið var voru hamingjusamar dýrategundir á beit á bænum.

Hamingjusöm gestahryssa .

Hamingjusamur Hrókur að borða blóm .

Ég varð samt ekkert voðalega hamingjusöm þegar að ég leit niður á bakka en þar voru nokkrar ullarpöddur á beit.

Hamingjusamar ullarpöddur !

Fyrir þá sem ekki þekkja þá dýrategund þá er hún yfirleitt með fjóra fætur,og ef vel er litið í augun á þeim þá glittir í sauðheimskann svip og jafnvel glott hjá þeim allra þrjóskustu.Stundum eru handföng á hausnum á þeim og eru þær alveg einstaklega duglegar að troðast undir girðingar og vera á beit allstaðar annarstaðar en þær eiga að vera.

Hamingjusöm kind (heimalningur:).

Þær sem eru á sínum stað kallast kindur .

Súsý litla minkveiðitík með meiru var ekki lengi að koma þeim á sinn stað og gekk mikið á hjá henni að koma þessum óþekktar pöddum aftur á sinn stað.

Engir smá taktar í tíkinni !
Aðferðirnar við smölunina hefðu fengið hvaða Border Collie sem er til að fá hláturskast en ullarpöddurnar skildu hvað var ætlast til af þeim og snöruðust með látum á sinn stað.

Þarmeð breyttust þær í værukærar kindur á beit um hagann sinn.....................þartil næst .

Nú ætti allt að vera fullt af hænukaupendum hér á hlaðinu hjá mér enda lifnar oftast við á haustin hjá fólki sem vill eignast fallegar hænur í bakgarðinn sinn eða á hlaðið.
Síminn stoppaði ekki um daginn,allir að koma og kaupa hænur en enginn lét sjá sig! Klór klór í haus????

Aðalhaninn á bænum er með Rósakamb og fiður á fótum.

Palli var eitthvað feiminn við cameruna,skildi það vera útaf stélinu?

Þannig að nú auglýsi ég hænur til sölu í öllum regnbogans litum og eru þær verðlagðar á 2000 krónur stykkið.Fyrstur kemur fyrstur fær .Það má slást hérna á hlaðinu!

Sama var með traktorinn sem var auglýstur gefins,fullt af fólki á leiðinni að sækja hann og einir fjórir kallar ætluðu að koma nánast sama kvöldið en enginn kom! Klór klór í haus og nú er ég komin með skalla!

Það endaði með að traktors ræfillinn lenti í skóflukjafti og endaði kraminn uppá járnahaug.

Verkstæðið gamla er alveg að tæmast og bara eins dags vinna í viðbót við að tæma það og þá verður það rifið niður með látum.

Ekkert smá duglegir strákarnir við að tæma og henda og henda því sem mátti missa sín fyrir tugum ára!

Fegin er ég að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að það fjúki hér yfir allt og alla í veðurofsanum sem eru farin að verða reglulega á veturnar.
Ég bara beið eftir því í fyrra að verkstæðið splundraðist yfir okkur og nágranna en það slapp sem betur fer.Nóg var að týna upp glerið og grindina eftir að gróðurhúsið sprakk hér í loft í fyrravetur.

Komið nóg af bulli í þetta skiptið elskurnar mínar.
Drífið ykkur nú að taka upp tólið og hringja í mig í síma 869-8192 og verslið ykkur flottar Íslenskar hænur áður en þær enda einsog traktorinn.............. hnéhnéhné .

Og hér er linkur inná Heimasíðu hinnar Íslensku Landnámshænu fyrir þá sem þyrstir í skemmtilegann fróðleik um þær. http://www.haena.is/

  • 1

Um mig

Nafn:

Ingibjörg Rannveig Ingólfsdóttir (Ransý)

Farsími:

869-8192

Afmælisdagur:

25 Júlí

Heimilisfang:

Ásgarði

Staðsetning:

250 Garði

Heimasími:

422-7363

Um:

Ég er með hestabakteríuna ógerlegu einsog svo margir aðrir.Náði mér í bónda og fór að búa með honum Hebba mínum í Ásgarði 1998.Muna að kvitta í gestabókina!Njóttu.

Kennitala:

250766-4839

Bankanúmer:

0157-05-400339

Tenglar

Fána teljari

free counters

Eldra efni

Flettingar í dag: 112
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 255
Gestir í gær: 97
Samtals flettingar: 213900
Samtals gestir: 24506
Tölur uppfærðar: 2.10.2023 03:27:34