Heimasíða Ásgarðs

Færslur: 2007 Maí

31.05.2007 14:26

Skráma köstuð merfolaldi faðir Grallari frá Syðra-Kolugili


Skráma kastaði óvænt síðasta daginn í Maí en við bjuggumst ekki við folaldi fyrren um mitt sumarið.Þetta er áttunda folaldið í í Maí og er þetta algert met í Maímánuði hjá okkur.Magga á bæði merina og folaldið og líklega er þetta meri en liturinn er að vefjast svolítið fyrir okkur.Móðirin er rauðlitförótt og faðirinn er/var brúnlitföróttur en hann fórst af slysförum í vetur fréttum við.Folaldið er háfætt og myndarlegt og lýtur það út fyrir að vera móálótt á búkinn en kannski er það brúnt og litförótt.Einhver grár blær er á folaldinu og er spennandi að vita hvernig liturinn á því þróast.

Talandi um fallega byggingu þá er hér mont mynd af Eðju-Dímonarsyni að sperra sig og teygja.Ohhhhhh........ég ætla sko að vona að hann verði litföróttur en það kemur í ljós eftir nokkrar vikur.
Sabine Sebald vinkona mín var að gera ansi flott fyrir þá Dímon Glampason og Hrók Kormáksson.Kíkið á linkana hér fyrir neðan:

http://www.gaedingur.com/hrokur.html
og
http://www.gaedingur.com/dimon-stallion.html


Skjónu-Hróksdóttir er afskaplega forvitið folald og skemmtilegt.Kemur til að skoða mann og svo þýtur hún af stað með látum til mömmu sinnar! Ég er alveg á báðum áttum með hvort ég á að selja hana eða ekki.Langar afskaplega til að eiga hana en veitir kannski ef af peningnum.Ég setti mér þá reglu að ég mætti setja á 2 folöld fyrir okkur á ári en restin yrði seld og svo er folaldakjöt alveg sjúklega gott á grillið! Úffffffffffff...............nú hneikslaði ég einhvern ! Eitt í frystikistuna að hausti er flott fyrir okkur.Og ég tala nú ekki um hve hollt þetta kjöt er,ómengað af lyfjum og öðrum óæskilegum efnum.

Þessa fallegu mynd tók hún Magga af bakkanum hjá okkur.Garðskagavitarnir í baksýn og sjórinn sléttur á Suðurnesjunum .Já"stundum er logn á Suðurnesjum og veðrið er hreinlega búið að leika við okkur síðustu dagana.
Svo loksins fór að rigna eftir alla blíðuna og sólina og var rigningin kærkomin fyrir gróðurinn sem farinn var að gulna.
Æðarfuglinn er fainn að skoða hjá okkur landið og er rétt að byrja að verpa.Krían sem kom og fór kom aftur og núna er hún búin að hertaka Ásgarðinn eins og vanalega.Ég hef varið hana með kjafti og klóm fyrir ágangi fólks sem kemur hingað á vorin og veður yfir allar girðingar,brýtur staura og er með kjaft. Ég hef fengið allskonar óþverra framan í mig fyrir að vilja fá frið með mitt land og "mína" fugla og núna í vor þá var ég svolítið fegin að Krían skildi fara aftur.
En þá sá ég mig í anda í friði með alt hér og ágangur fólks inná landið okka myndi minnka.En þá tók eki betra við.Mávurinn sat hér um eggin úr Aliöndunum okkar og urðum við að reka þær inní hús til að fá frið með eggin sem við höfum selt.Núna eru þær farnar að liggja á eggjum inni og fá frið þar til þess fyrir þessum fljúgjandi ruslatunnum sem vargurinn er.Hér hafa setið á hverjum staur Mávar og engann veginn fær maður frið með eitt eða neitt fyrir þeim.Þeir rífa og tæta ruslapokana fyrir utan hjá manni ef ég set þá ekki strax í tunnuna.Vonlaust er að gefa brauð útí hagann en þá flykkjast þeir að manni með þvílíkum gauragang að menn og skepnur verða hreinlega hræddir!
Ég hætti semsagt við það að vera fegin að Krían fór og svo loksins þegar að hún kom aftur þá lagaðist ástandið því Mávurinn á vængjum sínum fjör að launa og Krían lætur hann sko hafa það óþvegið núna hehehehehehehe..................
Hún er miklu þrifalegri fugl og lætur ruslið í friði og hægt er að gefa út brauð án þess að verða fyrir árás frá henni við það.
Heldur vil ég lifa við Kríugerið hér heldur en Mávager sem rífur allt og tætir.Ég get þó samið frið við kríuna með því að friða fyrir hana svæði og þá get ég hengt út þvott og farið út með ruslið án þess að fá hana í hausinn á mér.
Krían og ég gerðum nefnilega samning okkar á milli fyrir nokkrum árum,hún fær að hafa stærsta túnið hjá okkur undir varpið og einn til tvo haga og þá fæ ég að hafa húsið mitt í friði og landið þar í kring.
Ástæðan fyrir því að ég verð svo reið útí fólk sem er hér að vaða inní tún hjá mér og tína undan henni eggin er sú að þá færir Krían sig bara nær bænum mínum og ég sit eftir hér með sárt ennið öll útgogguð og reið.
Fyrir utan það að fólk á ekkert með að vaða hér yfir girðingar og taka það sem því hentar!
Ég gæti sagt ykkur margar ljóta sögur af því hvernig fólk hegðar sér við fuglana og náttúruna.Ég hef séð krakka koma og taka Æðaregg og setja í poka,síða var pokanum með eggjum hent utaní útíhúsin hjá okkur og skilin þar eftir mölbrotin.Til hvers???
Hebbi sá fullorðinn mann með Lóuegg sem hann sagðist hafa fundið og var maðurinn þvílíkt ánægður því hann hafði aldrei áður fundið svona STÓR KRÍUEGG!!!!
Hópur af fólki kom hingað seint á sumrin og týndi stropuð Kríuegg gagngert til þess að steikja ungana með fiðri og öllu og hét þessi réttur þeirra einhverju sérstöku nafni í þeirra heimalandi.
Svo urðum við vitni að ljótum leik um daginn.

Við sáum bíl ekið á miklu hraða eftir veginum hjá okkur og svo virtist sem fugl hefði lent undir bílnum því fiður þyrlaðist um allt undan honum.Ökumaðurinn stoppaði og gekk aftur fyrir bílinn og bograði yfir einhverju og sneri svo bílnum við á veginum og keyrði til baka og þá sá ég að fugl hékk aftan í bílnum og hafði hann verið bundinn við bílinn.Síðan slitnaði þráðurinn og enn sneri bílstjórinn við og núna var keyrt yfir fuglinn þvers og kruss þangað til nánast ekkert var eftir af honum.
Við sjáum alltof mikið af svona hegðun hér á veginum gangvart fuglalífinu og þegar að við reynum að verja þessi liltu grey sem eru að berjast við að koma upp ungum sem eru svo keyrðir hér niður í leik þá blöskrar okkur gersamlega.
Seinnipart sumars hafa krakkarnir gert sér það að leik að keyra niður kríungana sem sitja á veginum og eiga sér einskis ills von.
Þau keyra á ofsahraða í gegnum fuglahópana,snúa svo við og telja hræin og gefa sér stig fyrir hve mörgum þau náðu.
Svona hegðun á sér stað hér á okkar vegi og Stafnesi og líka hef ég heyrt um þetta í Vogunum.
Ég hef mest talið hátt í 200 hræ hér á veginum eftir svona hegðun og þykir okkur miður að horfa uppá þetta ár eftir ár.
Sem betur fer þá eru þetta örfáir sem hegða sér svona.
Og svo er fólk hissa á því hvernig við reynum að verja hér allt með kjafti og klóm!

30.05.2007 14:46

Villimey köstuð jörpu merfolaldi undan Hrók


Villmey kastaði í morgun jörpu merfolaldi undan honum Hrók.
Þetta líst mér vel á að fá merfolöld og er sú stutta bráðhugguleg og lappalöng eins og pabbinn.Það var ekki æsingurinn í þeim þegar að ég læddist að þeim með cameruna og tók myndir í gríð og erg.

Hún var ekkert smá róleg og mátti ég liggja hjá henni og taka myndir og meira að segja taka í taglið á henni og kíkja undir!

Þá var þeirri gömlu alveg nóg boðið og forðaði afkvæmi í burtu!

Komdu hérna dóttir góð,enginn friður til að hvíla sig svona nýkomin í heiminn.Svo skrölti sú stutta á eftir mömmu gömlu á óstyrkum fótum greinilega glæný og rétt orðin þurr.


Tittirnir útí veðurblíðunni í dag.

Smá fréttir fyrir þá sem eru að bíða eftir að tittirnir þeirra verði geltir.Ég hringdi í dýralækninn okkar og spurði hann hvort honum þætti veðrið ekki upplagt til að gelda og þá svaraði hann því til að það væri í það minnsta blíðskaparveður þarsem hann væri.
Hann sat í lest í Danmörkinni og naut útýnisins útum gluggann.
Hann ætlar að hafa samband við mig á Föstudaginn og ákveða þá daginn en allt fer þetta eftir veðurspánni.
Og fyrir þá sem létu Dna testa og örmerkja hér í vetur.Vinsamlegast greiðið inná reikninginn minn 1192-05-400339
Kt. 250766-4839  núna um þessi mánaðarmót.Stóri reikningurinn er kominn og ætla ég að borga hann ekki seinna en helst NÚNA .
Fyrir þá sem létu bara taka Dna úr hrossinu sínu er upphæðin 3500- og fyrir þá sem létu örmerkja er upphæðin fyrir örmerkinguna 2500-.
Nú sumir létu bæði taka Dna og örmerkja og þá er það 6000-.


28.05.2007 16:26

Halastjarna kastaði rauðstjörnóttu merfolaldi undan Hrók


Ég fékk hryssu undan Halastjörnu! Nú er "amma" ánægð og vona ég að hún verði jafn glæsileg og Hel alsystir hennar var þegar að hún var tryppi.

Svo er stjarna á manni og líka smá hökuskegg hehehehe.....
Kannski þetta folald komist á sölusíðuna hjá Sabine vinkonu minni!
Líklega kemst hún þangað vegna litarins en rautt selst ekki alveg jafn hratt og td vindóttu og skjóttu litirnir .En fallegar eru línurnar í henni og er ég himinánægð með útkomuna.
Við hjónin erum ekki alveg sammála með hvenær tímabært er að fella elstu merarnar hjá okkur og er blessunin hún Halastjarna á síðasta snúning finnst mér.Hún ásamt Villimey þyrftu að fara að fá hvíldina sína því þær eru orðnar svo ragar í hóp á veturna og þarf að passa sérstaklega uppá þær í rúllu.
Sé til og ákveð það í haust hvernig þær verða eftir sumarið og haustið.Þetta er það erfiðasta við ræktun,það er að kveðja gömlu merarnar eftir áralanga ræktun og ekki gaman að fella þær og þá sérstaklega þær sem hafa verið að gefa gott og eru þægilegar við mann í td ormahreinsun og öllu stússinu sem fylgir þeim.
Ég vil frekar fella þær tímanlega en að láta þær snögg veslast upp ef eitthvað kemur fyrir.Það getur ýmislegt komið uppá með gömlurnar og betra að leyfa þeim að fara fyrr en seinna og muna þær þá í góðu ásigkomulagi en td veikar og vesælar á grafarbakkanum.Það er mannúðlegra eða svo finnst mér.

Það var sko engin smá fart á honum Hrók þegar að hann áttaði sig á því að við vorum að koma með stóran brauðpoka niður á bakka!
Það kann hann vel að meta og úðar því í sig sem mest hann má.
Hann er með eindæmum rólegur í merunum og mega þær vera hreinlega útum allt á kroppinu og skiptir hann sér ekki af þeim nema þegar að þær vilja fá hans þjónustu.Klárinn fitnar og fitnar!
Mér er nú ekki farið að lítast á blikuna því hann er að fara í þjálfun til Agnars Þórs í byrjun Júlí  og í síðsumarssýningu og mér datt bara ekki til hugar að hann Hrókur færi að bæta svona á sig kílóum um há anna fengitímann!
Er ekki best að bæta á hann merum svo hann hreyfi sig klárinn og verði mátulega slimm áður en hann fer!
Hér með auglýsi ég 5 pláss laus undir klárinn framtil 1 Júlí.Hann er alveg bráðduglegur að fylja,góður við merar og folöld og það er ekkert mál að bæta á hann merum þó hann sé kominn saman við stóðið.Endilega hafði samband við mig í síma 869-8192 ef þið viljið koma meri undir hann og fá með eindæmum geðgott afkvæmi,auðtamið og þægilegt við að eiga .Því get ég lofað .

Hann Sigurður yngri frá Norðurkoti kom ásamt Palla pabba sínum að líta á hvolpana hennar Buslu og Kubbs.Þeim leist vel á öll Buslu-Kubbsbörnin og Siggi var alveg til í að vera áfram hjá þeim í stóru stíunni og leika við þá frameftir kvöldi.
Þeir feðgar eiga fyrsta val á hvolpi enda sköffuðu folatollinn en þeir eru eigendur að honum Kubbi.
Margar frægðarsögur fuku yfir kaffibolla af Kubb og Buslu á víxl og var gaman að fá þá feðga í heimsókn.
Góðar fréttir eru af Buslunni og skyndilega er hún fari að stíga í fótinn sinn meira og meira og erum við vongóð um að nú fari þetta að koma hjá henni.Hún er mikið ánægð með mig og mína hjálp við hvolpana en ég er farin að gefa þeim kjöt og blása þeir út og eru hinir gráðugastir í matinn.Þetta léttir verulega á tíkinni og má hún ekki léttari vera.Smá saman er hún geldast upp en ég er vön að gefa hvolpunum mat 4 vikna en ekki 3 vikna eins og ég geri núna.
Við lentum í smá hasar en þannig er að Veiðibjalla verpti í hagann hjá okkur annað árið í röð og í fyrra eyðilögðum við eggin hennar og gerðum þar með vitleysu.
Í ár er ætlunin að skjóta hana á hreiðrinu en hún var svo vör um sig að Hebbi náði ekki að komast í færi við hana en náði í staðinn tveimur öðrum Veiðibjöllum í einu skoti!
Busla tapaði sér hreinlega í látunum við hvellinn og rauk af stað og notaði fótinn sinn óspart við að hemja aðra Bjölluna sem særðist og lagði á flótta.Hérna stendur hún í alla fjóra fætur!!!

Ég verð að segja ykkur smá sögu af kallinum mínum.Þessi saga er fyrir okkur konurnar að lesa........því einhvernveginn grunar mig að flestar konur sjái sinn mann í þesssari litlu sögu hehehehehe.....

Þannig er að við Hebbi minn erum stundum að berjast við svefnvesen útaf giktinni sem er að hrjá okkur í tíma og ótíma.
Eina nóttina um daginn þá bylti kallinn sér óspart og svaf svo illa.Undir morguninn var hann alltaf að vakna og fannst eitthvað vera að hrjá hann innvortis og var með verk í síðunni.Hann var svo eitthvað ómögulegur í síðunni og fannst jafnvel hann finna æxli eða eitthvað torkennilegt og spann hann heila sögu í huganum um sjúkrahúslegur og uppskurð og allann bara pakkann sem því fylgir.
Svo kom að kall vaknaði almennilega eftir þessa erfiðu nótt og sest upp í rúminu alveg örmagna og strýkur síðuna hel auma að hann sér að lakið er ekki í réttum lit! Það var allt rautt og brúnt akkúrat þar sem hann hafði legið! Ætli æxlið  hafi sprungið um morguninn???
Svo kom skýringin!
"RANSÝ".............................varstu að borða M&M uppí rúmi í nótt!!!!!




26.05.2007 16:27

Eðja köstuð vindótt stjörnóttóttur Dímonarsonur Seldur/sold


Eðja var mikið montin með nýja soninn sinn þegar að ég kom niður á bakka til að aðgæta lit og kyn.Mér sýnist hann vera með sama vindótta litinn og hún mamma sín og svo er bara spurningin hvort hann verður líka litföróttur eins og hún!
Merin var ósköp róleg og mátti ég snerta soninn og gat ég lyft taglinu svo að það er alveg öruggt að hann er strákur en ekki stelpa.
Hann væri nefnilega seldur ef hann væri merfolald og var búið að handsala hann í vetur.
Dímon Glampasonur pabbinn fór um daginn í ungfolamat og stóðst það með prýði.
Ég hvet þá sem eru spenntir fyrir ræktun og eru að hugsa sig um undir hvaða hest þeir eiga að leiða hryssuna sína að hafa samband við Sigurð Arnar í síma 848-5099 og panta undir hann Dímon frá Neðra-Skarði en það eru laus 2-3 pláss undir hann í sumar.
Þetta er foli með bjarta framtíð og gaman verður að fylgjast með framvindu mála næsta vetur og vor og vita hvernir hann kemur út í tamningu.Stefnt er með hestinn alla leið í kynbótabrautina og á hann fullt erindi þangað.Hann er fimmgangshestur og toltið verður ekki vandamál hjá honum því hann rúllar það auðveldlega frjáls og brokkar auðvitað og svo hef ég séð hann skeiða líka.
Ég er minnsta kosti vorðalega spennt fyrir þessum folöldum sem ég fæ undan honum og ligg á bæn að folaldið undan sokkudís og Dímon verði hryssa .Það eru komnir tveir strákar og núna viljum við fá hryssu/r en það eru tvær ókastaðar enn sem fengu við Dímoni í fyrra.

Nú er bara spennan hvort Eðjusonur sé efni í framtíðarstóðhest eða? .Ætla að hugsa málið með hann en set hann samt inná sölusíðuna hjá Sabine fljótlega.Ef hann selst ekki þá hef ég hann með kúlunum og sé til hvernig hann þróast.

Svo er maður með stóra fallega stjörnu í þokkabót!
Ég tók miklu fleiri myndir í dag í góða veðrinu og eina geggjaða af vindótta merfolaldinu!
Verð að hætta þessu bulli gott fólk og fara að huga að skepnunum á bænum .
Smá viðbót 27 maí.
Það er sko aldeilis líf í tuskunum hér á bæ..............Dímonarsonur er seldur!

23.05.2007 21:42

Vindótt merfolald fætt! Seld/sold!


Folöldin bókstaflega hrynja úr hryssunum þessa dagana og var þriðja merfolaldið í röð að fæðast í dag.Gullfallegt vindótt merfolald úr gestahryssu sem er hér í nokkrar vikur.
Þarna sýnist mér vera á ferðinni spennandi hryssa og ættin skemmir ekki en hún er undan hryssu af gamla Uxahryggja kyninu og fola sem er undan Gauk frá Innri-Skeljabrekku og ef ég man rétt þá er hann faðir hans Glyms frá sama bæ.
Ég fékk alveg firðring í magann en má ekki bæta við mig skamm skamm á mig!

Díana Drotting að skoða hana Silfru litlu.Ég gaf mér það leyfi að skýra dömuna Silfru og er hún frá Víðihlíð þó hún sé fædd hér í Ásgarðinum.
Er maður ekki flottur!!!!
Seld/sold................

23.05.2007 12:09

Skjóna mín köstuð 22 Maí


Skjóna mín var svo væn við mig að koma með brúnskjótta hryssu! Gæti samt verið
dökkjörp en það er kannski ekki alveg að marka litinn fyrren folaldið er orðið þurrt.

Fyrsta verkið í nýrri veröld var að kúka soldið með ógurlegum fettum og brettum.
Sjáiði hvernig hún stendur í framfæturna,á framfótum folalda er einskonar "hlíf"til að skaða ekki fæðingarveginn í hryssunni og dettur þessi hlíf af fljótlega eftir fæðingu og þá eru hófarnir orðnir eðlilegir eins og við þekkjum þá.

Mér sýnist hún vera annaðhvort brúnskjótt eða dökkjörpskjótt.
Sko Hrókinn að skila öðru skjóttu í safnið á bænum.
En núna ætlar hún Skjóna ð hitta annan stóðhest og hann er Glófaxi glæsilegi sem fær hana eftir örfáa daga.Skjóna passar vel á móti honum og á að vera þægileg í viðmóti fyrir fola sem er að hitta hryssu í fyrsta sinn .


Herudóttirin kom að skoða mig þarsem ég sat í góða veðrinu og var að mynda nýja merfolaldið hennar Skjónu.
Meira hvað hún er forvitin,hún fann ullarlagð og var að vesenast með hann dágóða stund!

Síðan fann hún fylgjuna utanaf Skjónudóttur! Hvað skildi þetta nú vera??? Skildi mega leika sér að þessu???

Það má kannski prófa að stíga á þetta???
h
Úpppppsssss.......nú var ég næstum dottin um koll! Held ég sé kominn útá hálann "ís".

Ási Hrútakóngur orðinn stór og farinn að sýna minni hrútnum hornin hehehehehe.

Loksins tókst okkur að klára girðinguna fyrir gibburnar og fengu þær að vígja hana í gær.Það var gaman að kalla á þær inn´æi nýja hólfið og sjá þær tína í sig Fíflablöðin sem þær hreint elska eins og flest allir grasbítar gera.
Í dag fær Tóta að fara út með nýja hrússann sinn sem er svo agnarsmár að það er ekki fyndið! En sætur er hann og kátur!
Hér sefur hann Óskýrður Tótuson og hefur engar áhyggjur af hinum stóra heimi.

21.05.2007 22:58

Tóta borin 21 Maí

Þegar að við fórum að sinna skepunum í dag þá þótti okkur heldur betur hljóðlegt í horninu þarsem Tóta og Hrauna gibburnar okkar eru í stíum en Tóta er vön að arga og garga eftir einhverju í gogginn sinn nema í dag.


Var hún ekki borin blessunin og gerði það ein og óstudd.Enda kannski gott þarsem hún er gemsi/gemlingur og eru þeir oft viðkvæmari en fullorðnu kindurnar þegar að þær eru að bera og geta jafnvel hafnað lömbunum ef þær eru mikið truflaðar.

Man ekki hvort ég var búin að setja inn Karenar lömb þau Badda og Brynju en hér eru þau:) Ekkert smá flott!
Þá erum við komin með þau lömb sem við óskuðum okkur,fjögur stykki fyrir næsta vetur.

Corinne og Snót að ræða saman .

Corinne og fjölskylda komu hingað í heimsókn um daginn og svo Corinne ein aftur í dag að knúsa Sóley sína og Snót bless en þau eru farin aftur heim til Sviss á morgun.Sóley er algjör draumur og vill "tala" við alla en Snót setti bara upp svip og vildi bara fá að vera í friði með tugguna sína óáreytt.Hún verður orðin spakari næst og þiggur þá brauðið og kannski smá kjass líka.
Það var gaman að rabba við þau og alveg merkilegt hvað íslenski hestuinn getur áorkað.Þarna erum við búin að eignast góða vini sem eru mjög spennt fyrir öllu sem viðkemur hrossum og vonandi sjáum við okkur fært einn daginn að heimsækja þau.

Okkur buslu fannst alveg tímabært að hvolparnir færu að heiman eða minnst kosti útúr íbúðarhúsinu eftir að þeir byrjuðu að borða hundadósamat.Svo eru þeir orðnir svo stórir og frekir við okkur að hálfa var alveg nóg.
Við fluttum þá fyrst niður í hesthús en þarsem þeir eru svo margir og duglegir að brölta um þá voru þeir aftur fluttir og núna útí stóðhestahús.Þar fengu þeir risastóra stíu fyllta með hálmi og hvolpahús til að lúlla í.Ekki amalegt fyrir þá að geta farið að skoppa um og losna kannski við fáein grömm af hvolpafitunni sem hreinlega lekur af þeim.Reyndar eru tveir af þessum níu minni og voru þeir báðir fæddir þónokkuð minni en hinir boltarnir.Enda geta þeir tveir farið miklu hraðar yfir og bjarga sér miklu betur en hinir sem sitja fastir á rassinum og væla bara hehehehehe.......

Hér eru sjö af níu stykkjum búin að týna bæði mömmu Buslu og sjálfum sér í þessum "stóra" heimi!
Fljótlega verða þeir allir seldir og verður spennandi að vita hvernig þeir reynast nýjum eigendum bæði sem verðandi minkaveiðihundar eða bara skemmtilegir heimilishundar.

Glófaxi var í essinu sínu í góða veðrinu í dag.Stillti sér eins og vanalega uppá hól og heimtaði að ég tæki mynd af honum .
Auðvitað smellti kellingin mynd af gaurnum en núna vildi fóstra hans fá að sjá meira en venjulega pósu uppá hól.

Hann fékk aldeilis að skyrpa duglega úr hófum og gerði það með stæl á harðastökki.
Og teygir sig sem mest hann má.Núna bíð ég eftir því að einhver sparihryssan mín kasti svo ég geti farið með hana uppí hólfið til hans Glófaxa og búið til eitthvað fallegt, geðgott og viðráðanlegt fyrir gamla giktveika konu hehehehehehe......
Nei"án gríns þá er þessi foli alveg snilld í skapinu.Gerir það sem hann er beðinn um og ekkert múður.

Hér er hann Tangó bróðir hans Glófaxa og nú er bara spurningin þessi,á eigandinn að sitja hann í fyrsta skipti og er mér þá boðið?

Hehehehehe.............Ég sá alveg eigandann í anda í þessari sólksinsskvettu sem Tangó tók og aftur og aftur hentist afturparturinn hátt á loft í gleðinni yfir að vera til.
Hann er sko sami ljúflingurinn og Glófaxi litli bróðir .

16.05.2007 13:50

Hera kastaði merfolaldi 15 Maí



Innilega til hamingju Magga mín með merfolaldið undan Heru og Rösk Illingsyni frá Lambanesi.Sniðugur litur á folaldinu þínu . Ég fór í eftirlitsferð niður á tún í dag og allt í stakasta lagi með alla.Sumir voru á kroppinu á meðan aðrir fengu sé lúr í góða veðrinu og enn aðrir voru að éta úr rúllunni.


Hrókur að vakna og teygir sig á alla kanta.

Það er búið að vera svo mikið að gera hjá mér að ég náði ekki að taka hana Moldu frá Hrók eða Hrók frá Moldu þannig að Molda er fengi við honum aftur.Hef nú svosem ekki stórar áhyggjur af því eftir allar æfingarnar með Glennu og soninn hennar hann Pjakk sem fæddist í Janúar í vetur.Núna veit maður hvernig það er að vera með vetrarkastað folald og er það heilmikil vinna en skemmtileg.

Krían kom loksins þann 14 maí og hefur ekki verið svona lengi á leiðinni hingað í tugir ára.Eitthvað held ég að hún sé hissa á því að ég sé búin að taka af henni Flugvöllinn (tún) en Hrókur og hans dömur eru með það tún frameftir sumri á meðan bakkinn er að gróa fallega upp eftir að hafa verið tekinn í gjörgæslu og fiskislóg dreift yfir hann mest allann.Það verður spennandi að vita hvort hann grær ekki vel upp undan þessu og hvort nýji grjótvarnargarðurinn gerir ekki sitt gagn en núna væntum við þess að sandurinn hætti að fjúka yfir bakkann og kaffæra allt gras þar á veturna og vorin.

Þessa dagana erum við í girðingarvinnu og mikið að gera hjá okkur.Kallinn minn er svo hrikalega nákvæmur að það er varla hægt að vinna með honum!Hvað haldiði að hann hafi gert í gær?
Hann reif upp nokkra staura aftur vegna þess að þeir voru ekki í beinni línu við spottann og það er sko ekki auðvelt að koma þessum staurum niður fyrir grjóti og klöppum!
Og auðvitað er þetta voðalega fínt og flott og allt í beinni línu og í dag á að halda áfram og setja netið á svo að hægt verði að hleypa gibbunum í hólfið sitt með lömbin sín.Ein er enn óborin en það er hún Tóta frá Grindavík.Mig hlakkar ýkt til að hún komi með lamb þá hættir hún kannski þessu eilífa brauðjarmi á mann arg arg!
Hvernig stendur á því að maður hlustar ekki á þá sem reyndari eru og passar uppá að gera gibburnar ekki svona brjálaðar?
Man það næst að gefa brauðið eða fóðurbætinn á garðann eða í jötuna eins og hjá hrossunum .

10.05.2007 18:54

Buslu hvolpar dafna vel


Busluhvolpar  hreinlega springa út og er alveg aðdáunarvert hve tíkin er dugleg að mjólka þeim.Hún fær líka að borða uppáhalds matinn sinn sem er hjörtu,nýru og lifur ásamt hráu hrossakjöti.
Þurrfóður hefur hún alltaf hjá sér og nægt vatn.Enda þegir hvolpahrúgan og sefur og sefur megnið af sólarhringnum.
Buslu var svo heitt um daginn að það endaði með því að ég rakaði hana með hestaklippunum og er þetta allt annað líf hjá henni núna.
Hún er farin að vera með mér úti við í verkunum og er afskaplega dugleg að fylgja mér í bæði hesthúsin.


Við fluttum merfolöldin úr stóra hesthúsinu og heim um daginn enda ekki hægt að hafa þau lengur með hestfolöldunum sem eru smátt og smátt að átta sig á vorinu.Þær eiga líka sumar ósköp bágt og hanga við girðinguna hjá Hrók og vita ekkert hvað þær eru að biðja um  ??? Imbra þessi brúna á myndinni er búin að átta sig á því að hún getur stolið sér mjólk úr Glennu sem er ákaflega skotin í Hrók og virðist vera endalaust í hestalátum! Glenna horfir dreymnum augum yfir rafgirðinguna og tekur ekkert eftir því að Imbra er að fá sér ylvolga mjólkina hans Pjakks litla sem horfir stóreygur á mömmu sem gerir ekkert í málunum  hehehehehhe.........

Það er allt á suðupunkti hérna í Ásgarðinum og allar merar í hestalátum og stóðhestarnir uppí húsi alveg að fara á límingunni!
Nú er sá tími sem best er að rífa skaflana undan og þarf ég að ná skeifunum undan henni Rjúpu minni áður en hún slasar systur sína hana Væntingun Hróksdóttur en Vænting er svo mikill slagsmálafíkill að hún kemst engann veginn á eftir traktornum þegar að gefið er því hún slæst svo mikið!!!


Það er allt á suðupunkti hérna í Ásgarðinum og allar merar í hestalátum og stóðhestarnir uppí húsi alveg að fara á límingunni!
Nú er sá tími sem best er að rífa skaflana undan og þarf ég að ná skeifunum undan henni Rjúpu minni áður en hún slasar systur sína hana Væntingun Hróksdóttur en Vænting er svo mikill slagsmálafíkill að hún kemst engann veginn á eftir traktornum þegar að gefið er því hún slæst svo mikið!!!
Ég man ekki eftir því að hafa séð merar slást svona heiftarlega en systur eru systra verstar eða einhvern veginn þannig ekki satt???

Sauðburðurinn gengur vel og ég er hálfsvekkt yfir því að hafa ekki mynd af nýjustu lömbunum á bænum sem komu í gærkveldi á meða ég var að slugsast inná Mánagrund í kaffi.
Ég hafði kíkt á hana Karen (gráa kindin okkar:)í gær milli 18:00-19:00 og var hún bara að borða og hin rólegasta. Milli 23:00-00:00 fór ég aftur að kíkja og viti menn! Var ekki Karen borin og hún sem var alltaf einlemb kom með tvö! Þarna voru komin lítil gimbur og lítill hrússi alhvít eins og pabbinn hann Flanki.Þau hafa hlotið nöfnin Baddi og Brynja .
Flanki hrútur komst ekki til að sjá nýju börnin sín en hann var nýrúinn og ormahreinsaður og búið að koma honum í fjárhólfið þarsem hann emjaði og grét sárann þegar að ég stakk hann af lengst uppí heiði en ég losnaði ekki við hann því hann elti mig bara og vildi ekki vera með hinum hrútunum.Ég kítki svo aftur í hólfið um kvöldið og held ég að hann hafi verið búinn að gráta sig í svefn á milli þúfna eða bara búinn að sætta sig við þetta og kominn í hrútahópinn.Aumingja Flankinn minn að eiga svona vondann eiganda sem vill ekki vera með honum í hólfinu í sumar .
Skrítið  ???
Farin austur með fyrsta hollið af trippum í Reiðholtið.Best að fara á meðan vegirnir eru auðir og allir að glápa á Evróvísion!

07.05.2007 12:39

Molda köstuð 6 Maí


Molda kastaði brúnstjörnóttu hestfolaldi í gær.Innilega til hamingju með folaldið þitt Ásta mín.Ég hef verið á háréttum tíma með að setja merarnar niður á tún og bakka og Molda kastaði á þeim stað sem merarnar vilja kasta á.Þær fara niður á bakka og lengst útí enda og kasta vanalega rétt við litla tjörn sem þar er.Bakkinn er allur að grænka og taka við sér en núna bíðum við eftir steypiregni svona rétt til að grasið spretti upp með látum þá er þetta komið.

Molda geispaði bara stórum og var hin rólegasta með nýja folaldið sitt.Hún var óvanalega róleg núna og mátti ég koma ansi nærri henni með cameruna.Ætli hún sé ekki farin að átta sig á því að það ætlar enginn að taka krílin frá henni,bara smella smá myndum .

Hrókur og Toppa verða tekin inn í cirka viku því ekki vil ég að hann setji svona fljótt annað folald í Moldu en þá kæmi það í Apríl á næsta ár.Ég eiginlega bjóst ekki við folaldi svona snemma í Maí en þetta sleppur vegna þess hve grænt er orðið og svo stendur Molda sig svo vel sem móðir og mjólkar mjög vel börnunum sínum.
Toppa er fínn sem félagskapur fyrir klárinn inni við á meðan Molda gengur í fyrsta sinn eftir köstun.Svo fær hann að fara aftur í hópinn sinn.

Veðurblíðan síðustu daga er búin að vera einstök.Allt að grænka og það sem borið var á rýkur upp úr jörðinni.Við erum búin að fá þónokkuð marga tanka af slógi (fiskiúrgangur) og hefur honum verið sprautað hér yfir bakkann og hluta af túnunum.Ekki er nú lyktin góð en svakalega grænkar allt fallega undan þessu.Ég passa vel uppá að hryssurnar fái rúllu með túnunum og hef opið inná Flugvöllinn (Túnið var flugvöllur:) svo hryssurnar fái óáborið með líka því annars geta þær fengið í lappirnar af sterkjunni.Það hafa ófá hross farið í löppunum hér á Suðurnesjum sem beitt var á vorin undir iðagrænum Fiskihjöllunum.Tala nú ekki um hvað þau múkkuðu illa sum hver.

Svona var ástandið á folöldunum fyrir nokkrum dögum.Steinlágu um allar jarðir og nutu veðurblíðunnar.

Snæugla Snæsdóttir svaf svo fast að ég var næstum dottin um hana í haganum!

Sokkadís alltaf jafnsæt og fín.Ég á folaldið sem er í henni í ár og Sabine vinkona ætlar að setja hana undir ungann og spennandi stóðhest og fer að líða að því að hryssan fari austur fyrir fjall að hitta hann.Á meðan bíður hún róleg með öðrum hryssum sem ekki eiga að fá að hitta hann Hróksa í sumar.Enda fer maður ekki að para hana saman við pabba gamla!

04.05.2007 01:03

Hrókur kominn í merarnar!


1 Maí fór Hrókur niðurá tún og náði ég og Magga að ormahreinsa 6 merar og snyrta hófa á þeim og svo fengu þær að hitta drenginn.Hann var alsæll með "konu"hópinn sinn og tók vel á móti þeim.
2 Maí náði ég alein og óstudd "gamla" konan að ormahreinsa og snyrta 4 merar í viðbót og niður á tún fóru þær til Hróksa líka.
3 Maí sótti ég restina af merunum en þar fóru 3 í viðbót niður á tún til hans og hann hreinlega tók varla eftir þeim!Ég var með cameruna á lofti og ætlaði sko að ná einhverjum svakalegu heilsumyndum (hross að heilsast:) en það gekk eitthvað illa hjá mér en þó náði ég smá myndum þarsem hann heilsaði nýjustu dömunum sínum.Síðan týndi ég klárnum en fann hann inní hesthúsi að kíkja ofaní stallana eftir einhverju góðgæti.Einhver eru nú rólegheitin hjá honum og furða ég mig stundum á því hvernig hann fer að því að fylja hryssurnar hehehehehehe............

Þarna ætlaði hún Mön að tuska Hrók eitthvað til en hann lét hana blessaða vita að hann léti nú ekki vaða alveg ofaní kokið á sér.
Sjáiði hana Toppu gömlu Náttfaradóttir lengst til vinstri!
Eina ferðina enn er hún tóm og nýtur hún þess að vera stóðmeri og er bókstaflega alltaf í hestalátum.Hrókur má ekki segja eitt einasta boffs þá mígur hún niður hehehehehe.......

Hrókur var alveg yfir sig hrifinn af Glennu og vildi endilega fá han líka til sín og Glenna var alveg til í að vera hjá honum en en en.......mannfólkið stjórnar þessu og allt í rafmagni .
Glenna nefnilega flutti í heimahesthúsið og unir sér þar vel.
Spennan var orðin of mikil uppí stóra hesthúsi og ekki þorandi að hafa hana þar öllu lengur nærri 8 stóðhestum í vorham!
Ég er búin að vera svakalega dugleg í vikunni og núna sér fyrir endann á hrossaflokkuninni hjá mér.Öll veturgömlu hestfolöldin eru komnir sér og merfolöldin sér.Ekki seinna vænna að skilja þau að áður en svallið hefst á þeim því allir eru að verða svo svakalega frískir eitthvað og folaldahamurinn að detta af þeim greyjunum.

Ég var að rölta um svæðið sem á að girða fyrir kindurnar um helgina og þá sá ég voðalega laumulegt Tjaldapar í móanum á undan mér.Haldiði að þau séu ekki búin að verpa!
Á heimleiðinni sá ég Sandlóu við vegkantinn heim að íbúðarhúsinu og skaust hún útí móa á harðahlaupum og tilbaka þegar að ég var farin framhjá.Enn eina ferðina verpir hún þarna og ausa bílar sem koma hingað og fara vega rykinum yfir hana! Þrautseigjan í þessum litla fugli að verpa þarna á sama stað ár eftir ár.

Ein af Aliöndunum okkar týndist um daginn og hélt ég að Rebbi eða Minkurinn hefði náð henni og dreif ég mig í að smala restinni eða alls 9 stykkjum í hús.En það leið ekki langur tími þartil við heyrðum blaður fyrir utan dyrnar og þarna stóð hún alein og heimtaði sinn mat og engar refjar.Líklega er þetta sama öndin og hvarf svona í fyrravor og var hún þá farin að liggja á eggjum ogn létum við hana í friði með það og einn daginn kom hún voðalega montin með 1 unga á eftir sér.Vanalega eru þeir hátt í 10 stykki og kannski hún komi með fleiri í ár.
Hinar verpa og verpa í gríð og erg enda gott að finna eggin núna í hænsnahúsinu en ekki um allar jarðir.
Vikan er hreinlega búin að fjúka frá mér! Ég hélt að það væri Þriðjudagur í dag en þá er að koma Föstudagur!!!!
Það er brjálað að gera og ég alveg að farast úr vorspenningin.
Kemst varla inn á kvöldin ú verkunum því að það er endalaust gaman að vera útí þessu yndislega vorveðri sem búið er að vera síðustu dagana.Er að koma inn stundum ellefu-tólf á miðnætti og alveg útkeyrð og yndislega þreytt.Svona á lífið að vera!
  • 1

Um mig

Nafn:

Ingibjörg Rannveig Ingólfsdóttir (Ransý)

Farsími:

869-8192

Afmælisdagur:

25 Júlí

Heimilisfang:

Ásgarði

Staðsetning:

250 Garði

Heimasími:

422-7363

Um:

Ég er með hestabakteríuna ógerlegu einsog svo margir aðrir.Náði mér í bónda og fór að búa með honum Hebba mínum í Ásgarði 1998.Muna að kvitta í gestabókina!Njóttu.

Kennitala:

250766-4839

Bankanúmer:

0157-05-400339

Tenglar

Fána teljari

free counters

Eldra efni

Flettingar í dag: 42
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 135
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 280615
Samtals gestir: 32698
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 03:22:52