Heimasíða Ásgarðs

16.11.2012 23:31

Seinna smalið í dag


Mættum í smal á slaginu 13:00 í dag og vorum við alltof fá og bjartsýn til að byrja með.
Lögðum af stað 3 manneskjur en svo bættust við fljótlega fleiri og í restina vorum við orðin 7.
Það snjóaði á okkur og gerði soldið dimmt stundum og snjófjúkið ruglaði mann algerlega í ríminu og voru flestir farnir að tapa áttum og farnir að labba í kolvitlausa átt.

Ég átti að ganga í átt að rennunni á eftir fénu þegar að það kom að en ég tók mið af röngum staur og gekk beint í veg fyrir féð eða það sagði kallinn minn mér að ég hefði gert.
Ég gerði mér enga grein fyrir því.

Sjonni á Arnarhól hélt hann væri í allt öðru horni á girðingunni og var víst farinn að snúast eitthvað í hringi til að reyna að átta sig á stöðunni.

Við sem erum vanalega í cirka 40 mínútur að labba hólfið og smala vorum í fimm klukkustundir að eltast við óþekktar skjátur um allt sem að tvístruðu sér í allar áttir og fóru um í aðskildum hópum.

Þrisvar sinnum taldi ég þær fara framhjá rennunni og stukku þær bara á smalana í fyrirstöðunni og var ég farin að hugsa stíft til Svans í Dalsmynni og hundanna hans meðan ég bölvaði skjátunum sundur og saman.

Forysta rallý rolla!
Við náðum þó góðum hóp inn en þá var hún Forysta okkar farin með stóran hóp á eftir sér og var einsog rallý rolla um allt hólf!

Líklega var hún með megnið af okkur kindum (áttum ekki nema 9 stykki) með sér og tætti um allt létt á fæti.

Hún náðist inn ásamt góðum hóp og var það holl númer 2 sem þá rakst inní réttina.

Hundurinn Pjakkur frá Arnahól var farinn að sýna góða smalatakta og létti það strax miklu álagi af öllum en hann mætti vera harðari í kindunum og ákveðnari þá væri hann nú bara nokkuð góður.

Ég mætti með hana Súsý litlu í löngu bandi,ekki veit ég hversvegna en það er kannski ekki sniðugt að vera með minkaveiðihund með í smali en þó!

Hún getur gelt frá sér allt vit og spangólaði ógurlega ef maður stoppaði,þvílík sorg að þurfa að vera í bandi og mega ekki taka aðeins í lurginn á stóru "minkunum":)

En það lagaðist nú í restina því nú voru smalarnir að verða ansi úríllir og öskureiðir eltandi 4-5 gemsur og ein galhörð hreinræktuð forysta sem fór fyrir hópnum og ætlaði sko ekki að láta tækla sig.

Á endanum byrjuðu kindunar að uppgefast og leggjast niður og þá var um að gera að keyra í hvelli og sækja þær.

Sjonni og Pjakkur náðu að stoppa af forystugemsann og stökk Sjonni á hann og var honum skutlað öfugum uppí kerruna okkar.

Silla sat hjá annari og var að verða ansi köld loksins þegar að við fundum hana og kindina.

Næstu tvær voru keyrðar uppi þartil þær lögðust en það var nú allur vindur að tæmast úr þeim fyrir.

Súsý litla fékk loksins að spretta úr spori á eftir þeirri síðustu og stökk í hana aftanverða og hengdi sig fasta í ullina þartil kindin missti kjarkinn við þennan 7 kg aðskotahlut dinglandi aftaní sér rífandi kjaft.

Hún var voða stolt að hafa náð svona stórri bráð og vonandi verður þetta ekki til þess að hún fari að sækjast í kindurnar.

Reyndar hefur hún engan áhuga á kindum nema bara uppí hólfi,þá missir hún sig algerlega enda allir æpandi og hlaupandi og auðvitað veit hún að þá er eitthvað meiriháttar skemmtilegt er að ske.

Á endanum var orðið svo dimmt að við urðum að hætta því við áttum eftir að draga í sundur féð og keyra heim.

2 skjátur eru ennþá eftir uppfrá en það svosem væsir ekki um þær og næg beit eftir í hólfinu.

Þegar að við komum niður í rétt með óþekktar skjáturnar þá beið eftir okkur sá besti sjóðheitur kaffisopi sem ég hef þegið.

Mér hlýnaði vel og enn betur þegar að við fórum að draga í sundur.

Allar 9 kindurnar okkar skiluðu sér og allar litu vel út og verður gaman að fóðra þær í vetur svona flott útlítandi eftir góða haustbeit.

Við drifum okkur svo beint heim og ég tók upp gulrætur,dreif súpukjöt í pottinn og gerði allt klárt og stillti pottinn á klukkutíma.

Setti ofninn í botn inní svefnherbergi og svo drifum við okkur út en kindurnar biðu ennþá í hestakerrunni.

Þær voru nú ansi glaðar að hittast flestar nema Kráka sem var fyrir heima og hún Forysta sem var að koma heim.

Þvílíkur slagur sem upphófst á milli þeirra!

Forysta var ekki einu sinni komin inní krónna heldur stökk uppí garðann og slóst við Kráku þar í gegn!

Það upphefst alltaf skrítið jarm þegar að svona slagur brýst út og verða hinar kindurnar hálf aumar yfir látunum.

Jæja,en við kláruðum verkin okkar og drifum okkur heim.

Kallinn í heita sturtu og ég í heitt bað og svo vola,sjóðheit kjötsúpan tilbúin og Saladmasterinn hélt henni vel heitri á meðan við vorum úti þó potturinn væri búinn að slökkva á sér fyrir löngu.

Er ekki lífið yndislegt:)!

Um mig

Nafn:

Ingibjörg Rannveig Ingólfsdóttir (Ransý)

Farsími:

869-8192

Afmælisdagur:

25 Júlí

Heimilisfang:

Ásgarði

Staðsetning:

250 Garði

Heimasími:

422-7363

Um:

Ég er með hestabakteríuna ógerlegu einsog svo margir aðrir.Náði mér í bónda og fór að búa með honum Hebba mínum í Ásgarði 1998.Muna að kvitta í gestabókina!Njóttu.

Kennitala:

250766-4839

Bankanúmer:

0157-05-400339

Tenglar

Fána teljari

free counters

Eldra efni

Flettingar í dag: 217
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 135
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 280790
Samtals gestir: 32711
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 07:38:53