
Falleg kona hún Ingigerður.Við skruppum af bæ og alla leið í Borgarnes en nú vorum við orðin á síðustu stundu með að sjá sýninguna Gleym þeim ei, sem er um sögu fimmtán íslenskra
kvenna. Sýningin er hönnuð af Heiði Hörn Hjartardóttur og er sett upp í
tilefni af kosningaafmæli kvenna. Sýningin er óvanaleg að því leyti að
efniviðurinn í hana kemur frá aðstandendum kvennanna fimmtán: texti,
munir og myndir.
Amma hans Hebba hún Ingigerður Kristjánsdóttir fékk sinn sess á sýningunni ásamt forláta klukku sem hún átti og var virkilega gaman að sjá og lesa um þessar konur sem hafa átt dagana misjafna í gegnum tíðina bæði gleði og sorg.
Sannakallaðar hetjur síns tíma og dugnaðurinn mikill í þeim.
Svo drifum við okkur tilbaka og komum við í Bauhaus en það fannst Hebbanum ekki borga sig,urðum einhverjum þúsundköllum fátækari fyrir vikið en ég brosti mínu breiðasta með minn feng sem var ýmislegt smálegt inná baðherbergið.
Heim komumst við en það var komin hálka og allir saltbílar landsins á þönum.
Drifum okkur í skítagallann og útí dýrahús að gefa.
Ég kallaði inn kindurnar og endurnar og allir voru voða fegnir að fá að komast inní hús.Kindurnar voru nýbúnar með rúlluna og endurnar orðnar sársvangar.
Ég dreif mig í að ormahreinsa ásetningsgimbrarnar og svo kindurnar og var snögg að því.
Þurfti varla hjálp við það svo skipulega fór ég í þetta.
Reyndar er ég orðin svo mikið breytt til verka eftir að hafa komist á skjaldkirtilslyfin að líf mitt er rétt að byrja núna!
Best að vera ekki of ánægð með sig og montin því það kemur bara í bakið á manni síðar.
Það er vaninn!
Kallinn fór vel yfir alla fuglana og kanínurnar og við vorum búin í verkunum á einum og hálfum tíma.