Þegar að ég var að keyra rúllu í hólfið hjá merunum og trippunum þá hugsaði ég að nú væri það líklega að verða of seint að taka til hliðar hana Vordísi Brúnblesadóttur áður en hún kastaði en hún er sú eina hér á bæ sem að fékk við honum Hrók mínum.
Ég fékk nefnilega þær fréttir í gær að Glóð Stígsdóttir væri köstuð og Hróksdóttir væri komin í heiminn vestur í Dölum og óska ég eigendum hennar innilega til hamingju með þessa fínu hryssu.
Þegar að öll hrossin voru komin í rúlluna þá tek ég eftir því að Vordísi vantar og sé ég hana þá liggjandi á hliðinni að rembast og rembast en lítið gekk að koma folaldinu í heiminn.
Vordís stóð svo upp og sá ég þá löpp standa aftanúr henni og hringdi ég í kallinn því þetta var ekki alveg að gera sig og betra að hafa einhvern til að aðstoða við að ná folaldinu útur merinni.
Ég sá svo að þarna var annar fótur að gægjast út og hálft höfuðið einnig.
Hryssan virtist ekkert ætla að leggjast niður og reyna meir en ég treysti mér nú ekki alveg nálægt henni á meðan ég var að átta mig á stöðunni.
Ég hef ekki hjálpað hryssu við köstun en allt er þetta stærra í sniðum en hjá kindunum.
Aumingja Vordís starði bara á okkur voðalega aum á svip og svo rölti hún að mér og stakk hausnum í fangið á mér einsog hún vildi biðja um aðstoð við þetta sem var að plaga hana.
Ég ákvað að drífa mig í að reyna að tosa folaldið út en það var svo fast á öxlunum að kallinn varð að taka á öðrum fætinum og ég í hinn og svo var bara tosað og tosað og smá saman fór folaldið að mjakast út og hryssan henti sér niður og við drógum út jarpann hest,frekar penann enda er þetta fyrsta folaldið hennar Vordísar. Sólahringsgamall að leggja sig í rúllu.
Eftir að folald og móðir voru búin að jafna sig,hildirnar dottnar frá henni og Jarpur litli búinn að fá broddmjólkina og orðinn nokkuð styrkur þá flutti ég þau í annað hólf og tók hana Fjalladísi mína með sem er orðin ansi líkleg til að fara að koma með fyrsta Astró afkvæmið hér í Ásgarðinum.
Ég er með hestabakteríuna ógerlegu einsog svo margir aðrir.Náði mér í bónda og fór að búa með honum Hebba mínum í Ásgarði 1998.Muna að kvitta í gestabókina!Njóttu.