
Héðan er allt gott að frétta nema hvað.
Lífið gengur sinn vanagang í sveitinni og báðir stóðhestarnir enn að vinna vinnuna sína.
Hrókur fékk gestahryssu til sín og aðra að auki frá okkur svona til þess að fylgja henni inní hólfið en hryssurnar sem fyrir eru vilja verja sitt og þá er ekkert vit að senda bara eina inn í hólfið.

Astró er alveg að standa sig á bakkanum með sínar dömur.
Frábært að fylgjast með honum því hann hegðar sér nákvæmlega einsog sá gamli okkar en þegar að dömurnar eru búnar að fá gott í kroppinn í x marga daga í röð þá neitar hann þeim um meira heldur snýr sér að næstu dömum sem eru að byrja í hestalátum.

Róa sig Sokka!
Hann er ekkert að ofgera sér en vinnur vinnuna sína samviskusamlega og passar vel uppá að kroppa á milli stunda og heldur þar af leiðandi frábærum holdum.
Svona eiga stóðhestar að vera
Það eru í dag 5 dömur sem leggja hann í einelti og eru það þær Mön-Stórstjarna Skeifa-Heilladís og Eðja en eina hryssan sem hann er spenntur fyrir núna er hún Eðja en það er soldið mál fyrir kappann að fá stund með henni í friði fyrir hinum dömunum.
Yngri dömurnar sem eru heimvið hesthús í smá forvinnu horfa hugfangnar niður á bakka í von að að ná athygli hans.

Embla Sokku/Hróksdóttir lætur sig dreyma.
Folöldin blása út og gaman að fylgjast með þeim og vonandi fer ég að gefa mér tíma í að klára að gefa þeim nöfn.

Eðju/Hrókssonur vindóttur.

Vænting Glymsdóttir með vini sínum vindótta NN Aðalssyni frá Höfnum.
Þau eru í pössun hér tímabundið og gaman að fylgjast með þeim en sá stutti er alveg límdur við Væntingu á milli þess sem hann skreppur í mjólkursopann til mömmu.