29 Nóvember
Veðrið er búið að gera bæði mönnum og skepnum gramt í geði.
Vægast sagt og var mér nóg boðið og ákvað að setja inn elstu hrossin úr heldri hrossa hólfinu áður en enn eitt veðuráhlaupið gengi yfir.
Það var ekki vandamálið að fá hrossin heim að hesthúsi og eina hrossið sem var að vesenast eitthvað var hann Felix kallinn sem vildi fá allar hryssurnar sínar inn og ekki skilja neina eftir útundan.

Felix orðinn sáttur og farinn að tína í sig stráin.
Halastjarna gamla sem er orðin gömul og hægfara var óvenju hæg þennan dag og Felix hljóp alltaf aftur útúr hesthúsinu og kallaði í hana alveg ólmur að fá hana inn líka.Sem betur fer segi ég nú bara því þegar að hryssan kom inn loksins eftir að ég varð að fara út og hjálpa Felix með hana þá sá ég fljótlega að hún var ekki í lagi.
Það stórsá á henni holdafarslega séð og það lagði megna ólykt útúr munninum á henni.Hún átti erfitt með að éta og datt mér strax í hug að það væri eitthvað að tönn í henni og hringdi ég í hann Jón Steinar sem kom einsog og kallaður og kíktum við uppí hana.

Lyktin var óbærileg út úr merinni.....Aumingja skepnan.
Ekkert athugavert sáum við uppí hryssunni nema nokkuð góðar tennur miðað við aldur en Jón renndi raspinum yfir jaxlana svona úr því að hryssan stóð svona þæg og góð.
Ég var búin að hringja í dýralækninn líka og tala við hann og kom hann skömmu síðar og þá kom það í ljós að Halastjarna var komin með lungnabólgu.
Það var brakhljóð í henni vinstra megin en ekki mjög djúpt en hægra lungað var hreint og engin óhljóð þeim megin.Mesta kvefið var í efri hlutanum og hryssan með nærri 40 stiga hita sem er hár hiti í hrossi.
Hann gaf henni Pencillín í æð og verkjastillandi því hún átti erfitt með öndun. Inni varð hún að vera og var ég ákveðin í að gera allt sem ég gæti fyrir hana blessaða enda búin að skila okkur nokkuð mörgum afkvæmum í gegnum tíðina og sárt að sjá á eftir henni án þess að reyna að hlúa að henni einsog hægt var.
Hringur er hennar elsta afkvæmi okkur fætt sá brúnblesótti en Halastjarna gerði það bara einu sinni að skila okkur þessum fallega lit.
Við gengum frá hrossunum einsog hægt var miðað við aðstæður en auðvitað gátum við ekki haft öll inni með henni Halastjörnu svona fárveikri en hin voru sett í gott skjól á meðan veðrið gekk yfir með látum.
Folaldið hennar var með henni inni og var ég að undra mig á því hve mikil mjólk var enn í hryssunni þrátt fyrir hve veik hún var orðin.
Það er ekki nema svona cirka hálfur mánuður síðan að hryssan var tekin inn ásamt fleiri hrossum og ormahreinsuð og þá var hún bara fín í holdum en eitthvað hægari og rólegri en vanalega.
Næst fórum við útí stóðhestahús og unnum þar verkin okkar og hleypti ég honum Flanka í kindurnar og núna lembdi hann hana Afveltu.Þá vonar maður bara að hún Afvelta kind standi í allar lappir og komi með falleg lömb að vori.
Hún fékk nafnið Afvelta vegna þess að hún fór tvívegis í afveltu hjá fyrrum eiganda núna síðastliði haust!
Enda feit og pattaraleg kind og kannski of holdmikil svo hún nái almennilegri fótfestu:)
Blogga meir í kvöld,er að reyna að vinna upp þessa blogglausu daga í réttri röð.