
Ég er að verða einsog vindþurrkuð skreið,ég get svo svarið það!Ef þessu roki fer ekki að linna þá veit ég hreinlega ekki hvað ég geri.Reyndar er eitt gott við rokið og það er að kallinn minn er alveg við það að fara að byggja reiðskála yfir mig svo ég fjúki nú ekki af baki trippunum sem ég er að fara að vinna í.Ekki svo galið þetta rok.........ég fæ reiðskála út á það:))) En svona í alvöru þá er hugmyndin að setja þak á milli gamla minkaskálans og refaskálans þegar að litla refahúsið verður fjarlægt sem er þar á milli.Þar fæ ég 42 metra langan skála sem verður tæplega 13 metra breiður og verður flott að gera trippin reiðfær þar inni og kenna þeim allar þessar hundakúnstir sem að mannskepnunni finnst svo gaman að láta ferfætlingana gera.
Ég fór á Mánagrundina í gær að sækja Hring og Skjóna sem að Gudda ætlar að lána mér í tamningarnar og í leiðinni fór ég með Gamminn hennar Eyglóra heim en hann er búinn að vera hér part úr vetri með merunum og líkað held ég bara vel.Minnsta kosti var hann ekkert voðalega hrifinn þegar að ég lokaði hann inní hesthúsinu og hann sá merarnar útum gluggann niðrí haga úða í sig rúllunum.Hann fékk bara smá brauð og varð að láta sér það nægja.Þar fékk hann að bíða í nokkra klukkutíma þartil mesta drullan var farin úr honum en í restina var hann greyið farinn að spræna úr sér skítnum við bæði viðbrigðin að koma í upphitað hesthús og þurfa að horfa á merarnar í haganum eftirlitslausar að hans mati!
Karlatöltið hjá Mána var spennandi og þvílíkar græjur á ferðinni einsog Númi frá Miðsitju,Óliver frá Austurkoti og fleiri og fleiri flott hross.Langeftirtektasta hrossið var hryssa undan Óríon frá Litla-Bergi sem bókstaflega sveif um og dansaði á töltinu um salinn svo áhorfendur tóku andann á lofti.Þvílíkar hreyfingar og fótlyfta! Hún hjólaði að framan og vissi vart hvar hún átti að bregða niður fætinum næst! Mér er nær skapi að lyfta upp símtólinu og panta undir Óríon og fara með mína bestu meri undir hann í sumar,hann gefur líka flotta liti og geðgott.Synd að hann skuli ekki vera meira notaður en klárnum er ekki haldið jafnstíft fram og tískuhestunum enda er þetta ekki gefins að halda á lofti stóðhestum í dag.Allt kostar þetta mikla peninga.

Óðinn Hróksson að láta sér líða vel.Hann liggur einsog hundur hehehe!