Heimasíða Ásgarðs

Færslur: 2015 Nóvember

12.11.2015 22:41

Borgarnes skreppur og kindurnar ormahreinsaðar


Falleg kona hún Ingigerður.

Við skruppum af bæ og alla leið í Borgarnes en nú vorum við orðin á síðustu stundu með að sjá sýninguna Gleym þeim ei, sem er um sögu fimmtán íslenskra kvenna. Sýningin er hönnuð af Heiði Hörn Hjartardóttur og er sett upp í tilefni af kosningaafmæli kvenna. Sýningin er óvanaleg að því leyti að efniviðurinn í hana kemur frá aðstandendum kvennanna fimmtán: texti, munir og myndir.

Amma hans Hebba hún Ingigerður Kristjánsdóttir fékk sinn sess á sýningunni ásamt forláta klukku sem hún átti og var virkilega gaman að sjá og lesa um þessar konur sem hafa átt dagana misjafna í gegnum tíðina bæði gleði og sorg.
Sannakallaðar hetjur síns tíma og dugnaðurinn mikill í þeim.

Svo drifum við okkur tilbaka og komum við í Bauhaus en það fannst Hebbanum ekki borga sig,urðum einhverjum þúsundköllum fátækari fyrir vikið en ég brosti mínu breiðasta með minn feng sem var ýmislegt smálegt inná baðherbergið.

Heim komumst við en það var komin hálka og allir saltbílar landsins á þönum.
Drifum okkur í skítagallann og útí dýrahús að gefa.
Ég kallaði inn kindurnar og endurnar og allir voru voða fegnir að fá að komast inní hús.Kindurnar voru nýbúnar með rúlluna og endurnar orðnar sársvangar.

Ég dreif mig í að ormahreinsa ásetningsgimbrarnar og svo kindurnar og var snögg að því.
Þurfti varla hjálp við það svo skipulega fór ég í þetta.
Reyndar er ég orðin svo mikið breytt til verka eftir að hafa komist á skjaldkirtilslyfin að líf mitt er rétt að byrja núna!

Best að vera ekki of ánægð með sig og montin því það kemur bara í bakið á manni síðar.
Það er vaninn!


Kallinn fór vel yfir alla fuglana og kanínurnar og við vorum búin í verkunum á einum og hálfum tíma.

  


08.11.2015 21:43

Ásetningarnir sprautaðir með þrívirka bóluefninu


Kolla Krákudóttir
Kölluðum kindurnar heim úr haganum og opnuðum hliðið og yfir veginn streymdu þær og á eftir kellingunni með brauðið og inn í fjárhúsið þarsem meira brauð beið þeirra í garðanum.

Það er voðalega þægilegt að eiga svona brauðkindur sem að er hægt að stýra fram og tilbaka með góðgæti í poka eða fötu.
En eitt er ég búin að læra að það má aldrei svíkja þær eða plata því þær muna það næst eða þarnæst.
Gegna ekki eins vel og geta verið með vesen.

En þegar inn var komið og þær búnar að úða í sig góðgerðunum og tuggunni þá tók ég frá ásetningsgimbrarnar og sprautaði með þrívirka bóluefninu.
Ein lítil gimbur var þarna sem ég var að furða mig á en hún var ekki skráð í Fjárvís sem ásetningur.
Því hringdi ég í vinkonu sem var við tölvu og gat frætt mig á því hvaða gimbur nr 118 væri en það er þrílembingsgimbur sem missti móður sína snemma en naut mjólkur í einhverntíma ásamt systrum sínum.
Blúnda móðir þeirra systra fór í afveltu í vor og skildi eftir sig 3 litlar dömur sem ekkert var hægt að tjónka við með pela þannig að ég bara setti þær aftur út uppá von og óvon.
Svo fóru þær niður á tún með öllum kindunum og lömbunum og svo bara týndust þær í fjöldanum en þær þroskuðust  bara ágætlega og ekkert mikið síður en hin lömbin sem höfðu mæður sínar.

Þessi þrílembings gimbur var svo hnellin þó lítil væri í haust að ég kippti henni með að gamni í dóm og stigaðist hún alveg ágætlega miðað við sína móðurlausu ævi.

Hún heitir Vala og er undan Blúndu (Bondínudóttur) og Fána (Borðasyni).
Svona stigaðist sú stutta: Þungi 33 óm 25 ómfita 2,2 lögun 2.5 h+h 8.0 læri 16.5 ull 7.5 = 32 stig.

Sumir hefðu nú ekki birt þennan dóm en ég er montin með þá stuttu og set hana á í vetur og skoða hana næsta haust varðandi framhaldið en nú veltur allt á að fóðra hana vel.
Það er eitthvað sem kítlar við að setja þessa á þó smá sé,einhver hvíslaði yfir öxlina á mér að gefa henni séns.

Ég á alveg eftir að setja svo inn blogg með hinum ásetnings gimbrunum sem eru með fína dóma en ég er alveg að verða komin þangað sem ég vil með tölurnar.
Meira um það seinna.


05.11.2015 21:11

Kindurnar farnar að fá rúllu út með beitinni.


Gaf kindunum út rúllu,þær eru ennþá inná stóra haganum með aðgengi að Sléttabóli þarsem er gott skjól og rennandi vatn fyrir þær.
Mér finnst alveg upplagt að skera göt í rúlluplastið en þá fer minnst til spillis og heyið ést vel upp.

Þetta er rúlla nr 2 sem ég gef útí hólf og eru þær 19 að tölu með 9 ásetninglömb.
Þær eru í cirka 6-7 daga með rúlluna.

Svo setti ég inn rúllu í fjárhúsið en þar eru 11 gimbrar sem bíða þess að fara í stóra ferðalagið alla leið ofaní kistu.
Þær ásamt kanínunum eru í cirka 8 daga með rúlluna.
Og í augnablikinu eru í kanínusalnum 50 kanínur með ungum.


Viku áður þegar að ég gaf fyrstu rúlluna út þá liðu ekki margir klukkutímar þartil ein kindin lá afvelta en það var hún Heba kellingin.

Hún horfði bara uppí himininn og beið eftir norðaljósasýningu sýndist mér.
Ég reisti hana upp og var hún orðin ansi útblásin og völt á fótunum sínum en fyrsta verkið hennar var að drífa sig í rúlluna og fá sér aðeins meiri tuggu.
Ég rak hana aðeins til og lét hana rölta þartil ég sá að hún var komin með gott jafnvægi.

Enn rignir og rignir og við að gera okkur vonir um að fá tækifæri til að hreinsa í það minnsta hánna sem endar í útiganginum.Best væri auðvitað að geta hreinsað af því sem eftir er,það lítur betur út og túnin verða auðveldari viðureignar næsta sumar.



  • 1

Um mig

Nafn:

Ingibjörg Rannveig Ingólfsdóttir (Ransý)

Farsími:

869-8192

Afmælisdagur:

25 Júlí

Heimilisfang:

Ásgarði

Staðsetning:

250 Garði

Heimasími:

422-7363

Um:

Ég er með hestabakteríuna ógerlegu einsog svo margir aðrir.Náði mér í bónda og fór að búa með honum Hebba mínum í Ásgarði 1998.Muna að kvitta í gestabókina!Njóttu.

Kennitala:

250766-4839

Bankanúmer:

0157-05-400339

Tenglar

Fána teljari

free counters

Eldra efni

Flettingar í dag: 97
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 740
Gestir í gær: 91
Samtals flettingar: 297094
Samtals gestir: 34188
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 07:13:47