Heimasíða Ásgarðs

17.04.2007 01:11

Námskeið í kynbótadómum á Miðfossum

Þá er maður svona að skríða saman eftir þvílíka helgi en hún var strembin en skemmtileg.Við komum seint heim af sýningunni á Miðfossum eða um 01:30 um nóttina og ég var svo spennt að vakna næsta morgun klukkan 07:00 að ég sofnaði eiginlega ekkert.
Stefna var nefnilega tekin aftur uppá Miðfossa á námskeið í kynbótadómum eða öllu heldur hæfileika dómum.
Ég var komin tímanlega uppeftir eða 09:30 og dreif mig inní hesthúsið á Miðfossum að berja augum alla þessa hesta sem þarna eru.Þarna er ekkert smá flott hesthús og gaman að rölta eftir göngunum og skoða.

Hluti af hesthúsinu á Miðfossum.

Námskeiðið var sett og vorum við 18 sem mættum til að læra allt sem viðkemur kynbótadómum og vorum við inni við fram að hádegi.
Eftir matarhlé fórum við inní Höllina og þar biðu okkar fullt af alvöru knöpum með alvöru hesta og nú var dæmt og dæmt.Ekkert slor þessir hestar margir hverjir og flaug ein 9 frá mér fyrir brokk til hennar Birnu Tryggva sem reið merinni Erlu frá Reykjavík sem sýndi ansi flott tilþrif þarna inni.
Cameran eða öllu heldur batteríin voru enn eina ferðina að stríða mér og ég get sjálfri mér kennt um að hafa ekki keypt ný batterí í vélina og náði ég þokkalegum myndum en gat ekki "súmmað"en ég reyndi nú samt:) Og ég missti af brokkinu hjá Birnu en náði stökkinu á vídeó:)

Birna á fullri ferð og leist dómurunum ekkert á hve hratt hún fór þarna inni í höllinni og töluðu um hve höllin væri lítil!Þeir hafa þá ekki séð krukkuna (höllina:) inná Mánagrund sem við verðum að notast við!!!En það er önnur saga:)

Ég var eiginlega mest undrandi á því hve faglegt þetta námskeið var.Alvöru kennarar og ekki bara einn eða tveir að kenna okkur heldur skarinn allur af alvöru dómurum sem eru að dæma á Kynbótasýningum.Núna skil ég þetta allt mikið betur og ég var mest ánægð að heyra að þegar að hross á ekki góðan dag í braut og hnökrar eru á sýningunni þá leitast þeir við að dæma það sem vel fer í sýningunni en rífa hrossið ekki niður í einkunum.En hrossið verður náttúrulega að sýna góða kafla í brautinni til að fá þá einkunn sem það á skilið þó svo að það hafi hnökrað af og til.
Núna skil ég betur dóminn á Hróknum mínum en það hef ég alltaf sagt,hann var dæmdur eins hátt og hægt var og teygt eins vel á einkununum og stundum hef ég verið pínulítið hissa á því hve vel hann dæmdist.Það er ágætt að vera ekki blindur á hrossið sitt og geta gengið um stóðið sitt með gagnrýnisaugum og vinsað úr fljótlega það sem ekki þykir vænlegt í það sem maður er að reyna að ná fram í sinni ræktun.
Mín ræktunarmarkmið eru aðalega þau að rækta geðgóð,hreingeng,faxprúð hross í sem flestum litum.
Svo er bara hvort mín markmið höfða til almennings sem ég er nú að reyna en þessi hross ættu að vera þau hross sem almenningur getur riðið og þarf ekki að skammast sín á:)
Ég er svolítið heppin hvað það varðar að flestar hryssurnar eru tamdar sem ég er að rækta undan og ég hef sjálf tamið og notað þær til reiðar þannig að ég svona nokkurn veginn veit hvað ég er að gera.Gott að vita hvað maður er að bralla hehehehehe......
Hrókurinn minn passar vel á móti þeim flestum,ætti jafnvel að bæta þær heldur enda er það markmið allra að bæta hjá sér gæðin en ekki hvað!

Eyþór Einarsson frá Syðra-Skörðugili að fara yfir einkunnir sem við gáfum hrossunum í höllinni.Dómararnir og kennararnir voru alls fimm að troða öllu mögulegu og ómögulegu í kollinn á okkur.
Reynir Aðalsteinsson var einn af þeim sem við vorum að dæma og var mikið gaman að hafa hann þarna.Ekkert smá hress og skemmtilegur karakter.

Það var mikið skrafað og skeggrætt um hrossin og dómana.
Skemmtilegur hópur sem þarna mætti og eitt það skemmtilegasta námskeið sem ég hef farið á.Held að þetta sé fjórða námskeiðið sem ég fer á sem hjálpar mér að taka ákvarðanir með framhaldið í minni ræktun.Hin þrjú voru hjá Magga Lár og Svanhildi Hall.
Þar lærði ég heilann helling en ekkert í líkingu við þetta námskeið sem var töluvert meiri lærdómur um hvað skeður loksins þegar að hrossið manns er komið í kynbótabrautina.
Ég fór á námskeið í bygginardómum á sínum tíma og svo á námskeið þarsem við lærðum að frumvinna ungviðið og meta þau og flokka eftir hæfileikum og byggingu.Einnig vorum við látin meta geðslag og var það mjög skemmtileg aðferð sem við notuðum til að staðsetja hrossin hvort þau voru ör,kjörkuð og svo framvegis.
Allt þetta nýtist manni vel í dag.

Í dag 16 Apríl var blíðskaparveður og frábært að vera útivið og vinna í kringum skepnurnar.Fyrst var heimahesthúsið mokað og gert fínt á meðan folöldin voru úti að spóka sig í góða veðrinu.
Næst flokkaði ég frá 4 folöld og setti niður á Vinkilinn góða sem nú er farinn að sperra á fullu.Þau sem þangað fóru í rúllu og beit voru Raketta Hróksdóttir,SSSól Hróksdóttir,Snæugla Snæsdóttir og Skvísa Snæsdóttir.
Þær eru orðnar svakalega duglegar að láta handleika sig í hesthúsinu........gleymdi að segja ykkur frá því að þær voru teknar heim um daginn ásamt Skjónu og Þór og öll bundin á bás.
Þannig að þær voru útskrifaðar með góða hegðunareinkunn og fengu að fara útí unghryssuhólfið.

Síðan gáfum við rúllu í hólfið hjá þeim en hvað haldiði að hafi skeð? Þær hnusuðu af heyinu og eltu svo traktorinn og þóttust ekki vilja þetta hey.Þær eru glöggar unghryssurnar,þetta hey var ekki verkað eftir hann Hebba minn og þær vildu aðra rúllu takk fyrir!
Auðvitað var ekkert hlustað á þær og ég sá nú líka til þeirra fara frá heyinu og kroppa nýgræðinginn sem allstaðar er að spretta í lautum og milli þúfna:)
Síðan var komið að því að taka Iðunni og Feng undan mæðrum sínum en Fengur var orðinn svo spól.....að þetta var bara ekki hægt lengur:)Báðar kúlurnar komnar niður í drengnum og tímabært að setja hann á bás og kenna honum góða siði ásamt henni Iðunni.

Fengur kominn á bás og farinn að læra meiri góða siði en hann er hinn vænsti strákur.Hann er ekkert smá stór orðinn og verð ég að hrósa henni Moldu mömmu hans fyrir hvað hún er dugleg að mjólka folöldunum sínum.
Eftir að við vorum búin að setja Iðunni og Feng inná bás þá gáfum við eldri hryssunum rúllu og allir voru sáttir.
Geldingarnir voru enn með sína rúllu og fá sko að klára hana.

Hebbi fór í að slóðadraga túnin og er hann búinn að slóðadraga þann hluta sem fyrstu fylfullu merarnar fara inná í Maí.Gott að vera búin að gera allt klárt áður en að fyrstu hryssur fara að kasta en ég býst við að þær fyrstu verði einhverntímann í Maílok.

Ég dundaði mér í heimahesthúsinu og brustaði yfir folöldin og dúllaði mér heilmikið á meðan ég beið eftir Gunnari og Krissu en þau voru að koma til að sækja 3 hross sem að eru að fara í útflutning.Það var ekki einna vænna að knúsa hann Þór og Skjónu ásamt honum Stíg sem eru öll að fara til Sviss.
Það gekk alveg glimrandi vel að koma þeim um borð í hestakerruna og þá eru þau blessuð farin úr Ásgarðinum.

Skjóna ferðbúin,þæg og stillt stelpa á bás.
Þór á neðri myndinni,svakalega þægilegt folald í allri umgengni.


Addi og Kolla kíktu við um kvöldmatarleytið og ég skellti kjúlla í ofninn og grænmeti á meðan þau drukku kaffið sitt.
Eftir að þau fóru þá drifum við okkur útí stóra hesthús og kláruðum að gefa þar en sumir stóðhestarnir höfðu ekki mikla lyst á meiru heyi en þeim var gefið þrisvar sinnum í dag!
Kanínuungarnir blása út og verð ég að fara að taka myndir og setja inná kanínubloggið mitt:)

 

Um mig

Nafn:

Ingibjörg Rannveig Ingólfsdóttir (Ransý)

Farsími:

869-8192

Afmælisdagur:

25 Júlí

Heimilisfang:

Ásgarði

Staðsetning:

250 Garði

Heimasími:

422-7363

Um:

Ég er með hestabakteríuna ógerlegu einsog svo margir aðrir.Náði mér í bónda og fór að búa með honum Hebba mínum í Ásgarði 1998.Muna að kvitta í gestabókina!Njóttu.

Kennitala:

250766-4839

Bankanúmer:

0157-05-400339

Tenglar

Fána teljari

free counters

Eldra efni

Flettingar í dag: 119
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 1439
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 312806
Samtals gestir: 36907
Tölur uppfærðar: 19.5.2024 04:45:02