Heimasíða Ásgarðs

05.05.2006 23:37

Alveg að koma folöld!

Nú fara folöldin að detta útúr merunum,ég get svo svarið það.Skjóna verður örugglega fyrst og fast á hæla hennar kemur hún Orka.Júgrin á þeim eru að blása út og verð ég að drífa mig að kaupa ormalyf í brúsa og ormahreinsa þær merar sem fara niður á Brunnflöt til að kasta og snyrta hófana á þeim líka.Brunnflötin er farin að líta ansi vel út og orðin vel græn og falleg.Best að ég setji rúllu þar niðureftir á morgun þó svo maður opni hana ekki fyrren fyrstu merarnar fara þar inná.Ég ætla að tína þær þar inná í hann Hrók sem fær lílega að fara í fyrra fallinu út með merunum sínum.ég ætla að viðhalda því að hægt sé að bæta á hann merum en það hefur verið gert frá því hann var 2-3 vetra gamall og alltaf hefur hann tekið vel á móti þeim blessaður.Eina sem ég þarf að fylgjast með eru hinar breddurnar sem að geta verið stundum leiðinlegar við nýjar hryssur fyrstu dagana.

Firmakeppnin hjá Mána var skemmtileg að vanda en ég stoppaði nú ekki lengi en nóg til þess að ná myndum af þeim hrossum og manneskjum sem ég þekki.Dætur hennar Guddu sýndu góða sýningu en móðurinni hljóp heldur betur kapp í kinn þegar sú eldri reið framhjá og spennan bar móðurina ofuliði og varð hún eldrauð af æsingi og fór að æpa á ungann sinn sem að missti hestinn eitt andartak upp en sú var nú fljót að laga það.Það er alveg á hreinu að næst ætla ég að smella líka myndum af foreldrunum alveg rígæstum yfir ungunum sínum og setja hér inná bullið mitt.

Mín er alltaf með einhverjar leiðindapestir og núna greip ég einhverstaðar ælupest.Ég hélt náttúrulega fyrst að ég hefði etið einhvern óþverra td verkjatöflurnar hans Hebba en svo var þetta bara pest.Það var ekki hátt á mér risið í fyrradag þegar að Stella og Valgerður komu en Valgerður var að sækja sér spæni sem við eigum sama í hlöðunni hjá mér.Ekki vildi ég nú viðurkenna að ég gæti ekki tekið á móti stelpunum sem voru komnar alla leið úr Grindavíkinni og hellti ég uppá kaffi og bauð þeim til stofu þarsem ég hlammaði mér niður í sófann og gat lítið mig hreyft eftir það.Monty Roberts var settur í tækið en ekki þótti okkur kallinn neitt voðalega mikið spennandi miðað við okkar reynslu í gegnum tíðina.Þóttumst við sjá í gegnum sum atriðin sem að byrjendur sjá ekki í gegnum og þykir manni það miður að sjá sum atriðin sem eru á diskinum eru mikið til sviðsett og líkast því þegar að sjónhverfingamenn eru að störfum.En þetta er víst bara mín skoðun og mikið gott ef að fólk getur lært eitthvað af Monty Roberts en ég er að hugsa um að losa mig við þessa diska mína sem ég hef ekkert með að gera.Þessi tamningaraðferð hefur verið stunduð hér á landi í áraraðir og lærði ég þessa aðferð gróflega af góðri vinkonu minni sem að var hjá hinum kunna hestamanni Ingimari Sveinssyni á Hvanneyri sem að lærði þessa aðferð hjá Monty en breytti ýmsu til betri vegar fyrir íslenska hestinn.Síðar fór ég sjálf með Hrók til Ingmars og lærði þar að beita þessari tækni og geri það enn með mjög góðum árangri.

Ég plataði Möggu með mér að kíkja á "skóginn"minn sem ég var að bauka við að gera fyrir 16-17 árum.Ég plantaði niður nokkrum grenitrjám og einhverju öðru sem ég fékk héðan og þaðan og með mikilli vinnu kom ég upp nokkrum trjám og þónokkru af allskonar gróðri uppí Miðnesheiðinni rétt hjá Mánagrundinni.Þarna vorum við dóttir mín að dunda okkur nokkur sumur og undum við okkur aldeilis vel þarna.Hún með skóflurnar og föturnar sínar á meðan mamman gróf og puðaði plöntunum niður um allt.Flestar plönturnar eru þarna ennþá en reyndar hurfu nokkuð margar plöntur eitt árið og voru skóflustungur um allt! En í dag þarf meira en stunguskóflu til að ná stærstu trjánum upp á auðveldann hátt.

Um mig

Nafn:

Ingibjörg Rannveig Ingólfsdóttir (Ransý)

Farsími:

869-8192

Afmælisdagur:

25 Júlí

Heimilisfang:

Ásgarði

Staðsetning:

250 Garði

Heimasími:

422-7363

Um:

Ég er með hestabakteríuna ógerlegu einsog svo margir aðrir.Náði mér í bónda og fór að búa með honum Hebba mínum í Ásgarði 1998.Muna að kvitta í gestabókina!Njóttu.

Kennitala:

250766-4839

Bankanúmer:

0157-05-400339

Tenglar

Fána teljari

free counters

Eldra efni

Flettingar í dag: 254
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 189
Gestir í gær: 15
Samtals flettingar: 299343
Samtals gestir: 34511
Tölur uppfærðar: 2.5.2024 22:57:23